„Sendum hana til baka!“

Trump sagði Omar hafa haft uppi orðræðu byggða á gyðingahatri.
Trump sagði Omar hafa haft uppi orðræðu byggða á gyðingahatri. AFP

„Send her back. Send her back. Send her back,“ kyrjuðu stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta á fjöldafundi sem hann hélt í Norður-Karólínu í gær. Þeir voru að tala um Ilhan Omar, þingkonu demókrata í Minnesota-fylki. Hún kom sem flóttabarn til Bandaríkjanna átta ára frá Sómalíu. Stuðningsmennirnir vildu því senda hana til „síns heima.“

Þegar Trump nefndi nafn hennar á téðum fundi ætlaði allt um koll að keyra í áhorfendastúkunum og átök brutust út á milli stuðningsmanna forsetans og mótmælanda sem var viðstaddur fundinn. Svo fór að hinum síðarnefnda var fylgt út. „Nú fer hann heim til mömmu sinnar og fær skömm í hattinn og þar við situr. Fyrirgefðu mamma!,“ sagði Trump um mótmælandann.

Mjög hafa verið á milli tannanna á andstæðingum Trumps ummæli hans á Twitter um fjórar bandarískar þingkonur, þar sem hann lýsti því að ef þeim líkuðu ekki Bandaríkin eins og þau voru skyldu þær snúa aftur til síns heima. Þrjár þingkvennanna voru þó fæddar og uppaldar í Bandaríkjunum, allar nema nefnd Ilhan Omar.

Ilhan Omar er lengst til vinstri á myndinni ásamt demókrataþingkonunum …
Ilhan Omar er lengst til vinstri á myndinni ásamt demókrataþingkonunum sem Trump sagði að fara aftur til síns heima, líkuðu þeim ekki Bandaríkin. AFP

„Augljóslega, og þetta er mikilvægt, á Omar sögu að baki af því að hafa frammi langar ræður byggðar á gyðingaandúð,“ sagði Trump á meðan stuðningshópurinn kyrjaði. Omar er múslimi sjálf, ein af tveimur fyrstu múslímsku konunum til að vera kjörin í fulltrúadeild Bandaríkjaþings síðasta haust.

Gamall hermaður sem styður Trump.
Gamall hermaður sem styður Trump. AFP
Þessi var á meðal stuðningsmanna Trump á fjöldafundinum í gær.
Þessi var á meðal stuðningsmanna Trump á fjöldafundinum í gær. AFP
mbl.is