6000 innflytjendur handteknir

Tyrkneskur lögreglumaður að störfum. Mynd úr safni.
Tyrkneskur lögreglumaður að störfum. Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld í Istanbúl hafa staðið fyrir herferð gegn óskráðum innflytjendum undanfarinn hálfan mánuð. Hafa um 6.000 manns verið handteknir á tímabilinu, m.a. sýrlenskir flóttamenn að sögn innanríkisráðherra landsins.

AFP-fréttaveitan segir ráðherrann Suleyman Soylu þó hafa neitað þeim fréttum undanfarinna daga að sýrlenskir flóttamenn hafi verið neyddir til að skrifa undir samþykkisyfirlýsingu á tyrknesku, máli sem þeir skilji ekki.

„Aðgerðirnar hafa verið í gangi frá 12. júlí og við höfum tekið 6.122 í Istanbúl, m.a. 2.600 Afgani,“ sagði Soylu í samtali við tyrknesku NTV sjónvarpsstöðina. Kvað hann hluta hópsins vera Sýrlendinga, en gaf ekki upp fjölda þeirra. „Þegar við tökum óskráða Sýrlendinga þá sendum við þá í flóttamannabúðir,“ sagði Soylu og vísaði þar til búða í Hatay héraði á landamærum Tyrklands og Sýrlands.

Sumir Sýrlendingar kysu hins vegar að snúa aftur til heimalands síns „af sjálfsdáðum“ til þeirra svæða þar sem átök standa ekki lengur yfir.

Hvergi eru fleiri sýrlenskir flóttamenn en í Tyrklandi, þar sem talið er að þeir séu 3,5 milljón.

Flestir eru skráðir og hafa hlotið „tímabundið dvalarleyfi“, en þeir eru fyrir vikið skyldaðir til að dvelja eingöngu í héraðinu þar sem þeir skráðu sig. Er herferðinni nú ætlað að ná til þeirra sem búa í Istanbúl án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.

Bandalag sýrlenskra mannréttindasamtaka greindi frá því í gær að rúmlega 600 Sýrlendingar, sem flestir voru skráðir með tímabundið dvalarleyfi í öðrum héruðum Tyrklands, hefðu verið handteknir í Istanbúl í síðustu viku og sendir til baka til Sýrlands í stað þess að vera sendir aftur til héraðanna sem þeir eru skráðir í.

mbl.is