Segir Trump hvorki sekan né saklausan

Sérstakur saksóknari Robert Mueller við vitnisburðinn í dag.
Sérstakur saksóknari Robert Mueller við vitnisburðinn í dag. AFP

Fátt nýtt hefur komið fram í vitnisburði sérstaks saksóknara, Roberts Mueller, fyrir tveimur þingnefndum fulltrúadeildar bandaríska þingsins í dag. Mueller virðist ætla standa við fyrri yfirlýsingu sína um að fylgja aðeins því sem fram kom í skýrslu embættis hans frá því í apríl um afskipti Rússlands af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. 

Skýrsla embættisins staðfesti samráð á milli ráðgjafa Trump og Rússa og leiddi í ljós sönnunargögn fyrir því að forsetinn hafi hindrað framgang réttvísinnar. Mueller fór þó ekki fram á að forsetinn yrði ákærður.

Mueller hefur lítið tjáð sig um málið. Á blaðamannafundi í maí tjáði hann sig í fyrsta sinn um málið og neitaði að taka við spurningum í kjölfar yfirlýsingar sinnar. Þá hefur hann verið á móti því að koma fyrir nefndir þingsins og leið honum bersýnilega óþægilega þegar vitnisburður hans hófst uppúr hádegi. 

„Mueller yfirmaður, okkur ber skylda til að fjalla um þau sönnunargögn sem þú hefur leitt í ljós,“ sagði forseti dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar, Jerry Nadler, í byrjun vitnisburðarins í dag. 

Andrúmsloftið spennuþrungið og afslappað til skiptis

Í inngangsframburði sínum sagðist Mueller ekki ætla að svara öllum spurningum þingmanna og hann sagðist ekki ætla að segja hvort að Trump hafi framið glæp. Þá fullyrti hann að rannsókn embættis hans hafi verið gerð á „sanngjarnan og sjálfstæðan hátt“. 

Ólíkt því sem Trump hefur ítrekað fullyrt, sagði Mueller í dag að skýrsla hans um afskipti Rússa, staðfesti ekki að forsetinn hafi ekki framið glæp. 

„Niðurstöðurnar gefa í skyn að forsetinn sé ekki hreinsaður af sök fyrir meintar gjörðir hans,“  sagði Mueller og bætti við að það væri „rétt“ að Trump gæti verið ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar þegar hann lætur af embætti forseta. 

Mueller ásamt ráðgjafa sínum.
Mueller ásamt ráðgjafa sínum. AFP

Þegar Nadler spurði Mueller hreint út hvort að 448 blaðsíðna skýrsla hans sanni að Trump hafi ekki brotið lög svaraði Mueller einfaldlega „nei“. Hann vildi þó ekki taka afstöðu til þess hvort að Trump hafi framið glæp, einungis að skýrsla hans sanni ekki að forsetinn sé saklaus. 

„Á grundvelli reglna dómsmálaráðuneytisins um sanngirni, ákváðum við að taka ekki afstöðu til þess hvort að forsetinn hafi framið glæp. Það var ákvörðun okkar þá og hún helst óbreytt í dag,“ sagði Mueller. 

Eftir því sem spurningarrétturinn hefur færst fram og til baka á milli þingmanna demókrata og repúblíkana, hefur andrúmsloftið orðið spennuþyngra og afslappaðra til skiptis. Mueller hefur svarað fjölmörgum spurningum með einsatkvæða orðum og ítrekað vísar hann aftur í skýrslu sína án þess að svara. 

Trump fullyrti fyrr í vikunni að hann myndi ekki horfa á vitnisburð Mueller sem er sjónvarpað í beinni útsendingu um öll Bandaríkin. Hálftíma áður en vitnisburðurinn hófst jós hann þó úr skálum reiði sinnar á Twitter og kvartaði meðal annars undan því að Mueller ætlaði að bera vitni með einn helsta ráðgjafa sinn við hlið sér. 

„Þetta var sérstaklega EKKI samþykkt, og ég hefði ALDREI samþykkt þetta. Stærstu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna, langsamlega!,“ sagði forsetinn í einu af tístum sínum.
mbl.is