Var eitrað fyrir Navalny?

Alexei Navalny var fluttur úr fangelsinu á sjúkrahús í dag. …
Alexei Navalny var fluttur úr fangelsinu á sjúkrahús í dag. Læknir sem hefur meðhöndlað hann áður óttast að eitrað hafi verið fyrir hann. AFP

Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, var fluttur á sjúkrahús fyrr í dag með einkenni sem sögð voru bráðaofnæmi. Reuters fréttaveitan hefur nú eftir lækni að vera kunni að eitrað hafi verið fyrir Navalny, sem var á miðvikudag fangelsaður fyrir að hvetja til ólöglegra mótmæla í Moskvu.

Yfir 1.000 manns voru handteknir í gær fyrir að taka þátt í mótmælunum og beitti lögregla m.a. táragasi. Evrópusambandið hefur fordæmt það sem forsvarsmenn þess segja „óhóflega valdbeitingu gegn mótmælendum.“

Kira Yarmysh talskona Navalnys, sem hafði hlotið 30 daga dóm, sagði í morgun að hann sýndi merki bráðaofnæmis. „Andlitið væri mjög bólgið og húð hans rauð“. Læknar á sjúkrahúsinu þar sem Navalny er meðhöndlaður hafa ekki enn upplýst um sjúkdómsgreiningu og er ástæða einkennanna því enn óþekkt.

Læknir sem áður hefur meðhöndlað Navalny, en sem fékk nú eingöngu að ræða stuttlega við hann og skoða hann í gegnum rifu á hurð, sagðist ekki geta útilokað að eitrað hefði verið fyrir honum.

„Við getum ekki útilokað eiturefnaskaða á húð og slímhúð af völdum óþekkst kemísks efnis sem hafi verið komið á hann af þriðja aðila,“ skrifaði læknirinn Anastasía Vasilyeva á Facebook.

Sagði Vasilyeva  Navalny hafa verið með útbrot á efri hluta líkamans, sár á húð og gröft í auga. Fór hún fram á að sýni yrðu tekin af rúmfatnaði Navalnys, húð hans og hári og að þetta sett í eiturefnapróf.

Þá segir grunsamlegt að hún hafi ekki fengið leyfi til að skoða hann almennilega.

Sjúkrahúsið þar sem Navalny fær aðhlynningu hefur ekki tjáð sig um málið.

Olga Mikhailova, lögfræðingur Navalnys, skrifaði í færslu á Facebook í kvöld að læknar vissu ekki hvað amaði að Navalny. Sjálf teldi hún sjúkdómseinkenni hans einkennileg í ljósi þess að hann hefði aldrei áður þjáðst af ofnæmi.

Navalny varð fyrir eiturefnabruna á auga í árás árið 2017, en læknum tókst að forða sjón hans frá skaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert