Baráttukonur gegn ofbeldi myrtar

Andrea Stoudamire og Chantell Grant voru skotnar þar sem þær …
Andrea Stoudamire og Chantell Grant voru skotnar þar sem þær stóðu á götuhorni í Englewood-hverfinu í Chicago. Ljósmyndir frá fjölskyldum kvennanna

Tvær mæður í Chicago í Bandaríkjunum voru skotnar til bana á föstudagskvöld, er þær stóðu sem sjálfboðaliðar á götuhorni í borginni í því skyni að koma í veg fyrir ofbeldi. Þær voru skotnar úr bíl sem var á ferð og hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.

Konurnar tvær, Andrea Stoudamire og Chantell Grant, voru félagar í samtökunum Mæður gegn tilgangslausum morðum (e. Mothers Against Senseless Killings) og stóðu saman á götuhorni í Englewood-hverfinu í suðurhluta Chicago, þar sem byssuofbeldi og átök eru algeng, þegar þær voru myrtar.

Grant var 26 ára fjögurra barna móðir, en Stoudamire 35 ára og átti hún þrjú börn.

Stuðningsmenn samtakanna og þess sem konurnar tvær stóðu fyrir segjast slegnir yfir morðunum og hyggjast halda minningu kvennanna á lofti, samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC um málið.

48 skotnir í Chicago um helgina

„Þetta er skelfilegt, þetta er átakanlegt. Ég hef ekki náð að sofa þar sem ég er að reyna að átta mig á því hvernig við getum stöðvað þetta,“ sagði Tamar Manassaeh, sem stofnaði mæðrasamtökin, við blaðið Chicaco Sun-Times.

Þessi sjálfboðaliðasamtök mæðra í hverfinu hafa tekið sér stöðu á tilteknu götuhorni í heil fjögur ár og boða þar gjarnan til grillveislna og annarra viðburða, í þeirri von að sýnileiki dragi úr ofbeldinu.

Samkvæmt frétt BBC urðu 48 manns fyrir byssukúlum í Chicago um helgina, en þar af létu átta lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert