„Á barmi mjög hættulegrar stöðu“

Lögregla hefur beitt táragasi og gúmmíkúlum gegn mótmælendum í dag.
Lögregla hefur beitt táragasi og gúmmíkúlum gegn mótmælendum í dag. AFP

Óeirðalögregla hefur tekist á við mótmælendur í Hong Kong í dag, þriðja daginn í röð. Þar er nú skollið á allsherjarverkfall, sem hefur svo gott sem lamað samgöngur í borginni og flugsamgöngur einnig. Ofbeldið færist í aukana.

Carrie Lam ríkisstjóri varar mótmælendur við og segir að hún muni ekki láta undan kröfum þeirra. Hún segir mótmælendur grafa undan lögum og reglu og varaði við því að nú væri Hong Kong „á barmi mjög hættulegrar stöðu“.

Hún sagði framferði mótmælenda í borginni vega að „eins ríkis, tveggja kerfa“ skipulaginu, sem hefur verið við lýði í Hong Kong frá því Kínverjar tóku við borginni úr höndum Breta árið 1997.

Carrie Lam ríkisstjóri Hong Kong á blaðamannafundi í dag.
Carrie Lam ríkisstjóri Hong Kong á blaðamannafundi í dag. AFP

„Ég leyfi mér að segja að þeir séu að reyna að eyðileggja Hong Kong,“ sagði Lam um mótmælendur.

Miklar samgöngutruflanir

Mótmælendur byrjuðu daginn á því að trufla neðanjarðarlestarkerfið. Fjöldi fólks þusti inn á stöðvarnar og hélt dyrum lesta opnum til þess að koma í veg fyrir að þær kæmust af stað. Olli þetta nær algjörri lömun á kerfinu, sem milljónir nýta sér til að komast leiðar sinnar á hverjum degi.

Mótmælendur lömuðu neðanjarðarlestarkerfið með því að koma í veg fyrir …
Mótmælendur lömuðu neðanjarðarlestarkerfið með því að koma í veg fyrir að lestir gætu farið af stað. AFP

Mótmælagöngur voru haldnar á sjö mismunandi stöðum í borginni síðdegis. Það þýðir að lögregla þurfti að dreifa liði sínu víða til þess að fylgjast með. Á tveimur stöðum beittu lögreglumenn táragasi gegn mótmælendum.

Mótmælendur búnir að loka táragashylki undir umferðarkeilu og slökkva svo …
Mótmælendur búnir að loka táragashylki undir umferðarkeilu og slökkva svo í því með vatni. AFP

Verkföll sem þessi eru afar fátíð í Hong Kong. Verkalýðsfélög hafa þar lítil áhrif. En í dag ríkti öngþveiti, meðal annars á flugvelli borgarinnar, þar sem þurfti að aflýsa yfir 160 flugferðum síðdegis. Flugvöllurinn er einn sá fjölfarnasti í heimi.

Sjá má í myndskeiðinu hér að neðan frá South China Morning Post hvernig verkfallsaðgerðir og truflanir mótmælenda hafa haft áhrif á daginn.

Flugfélagið Cathay Pacific þurfi að aflýsa mörgum flugferðum sínum. Félagið gaf ekki út neina ástæðu en samkvæmt frétt AFP hefur stéttarfélag flugfreyja og -þjóna hjá félaginu staðfest að hluti starfsmanna félagsins hafi farið í verkfall.

„Síðustu 50 daga hefur ríkisstjórnin verið að hundsa kröfur fólksins og notað lögregluvald til þess að reyna að kveða niður raddir þess, sem veldur því að ótalmargir Hong Kong-búar örvænta,“ sagði í yfirlýsingu stéttarfélagsins.

Lestin fer ekki langt með þennan liggjandi svona í dyragættinni.
Lestin fer ekki langt með þennan liggjandi svona í dyragættinni. AFP

Spenna í lofti

Mótmælendur lokuðu einnig vegum. Olli það nokkurri spennu á milli mótmælenda og þeirra sem nauðsynlega þurftu að komast leiðar sinnar. Í frétt AFP segir að myndskeið sé að finna á netinu af ökumanni keyra í gegnum vegatálma mótmælenda í úthverfi borgarinnar.

Hér að neðan má sjá borgaralega óhlýðni mótmælenda, sem keyra stanslaust í hringi á hringtorgi í borginni til þess að trufla umferð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka