Engin fjarskipti og samkomubann í Kasmír

Samkomubann er í gildi í Srinagar, stærstu borg indverska hluta …
Samkomubann er í gildi í Srinagar, stærstu borg indverska hluta Kasmír-héraðs og hafa götur þar verið tómlegar að sjá, bæði í gær og í dag. AFP

Indverski hluti Kasmír-héraðs hefur verið nær algjörlega sambandslaus við umheiminn frá því á sunnudagskvöld. Fjarskipti þar liggja að mestu niðri, en indversk stjórnvöld ákváðu að slíta á fjarskiptaleiðir íbúa í héraðinu, sennilega til þess að koma í veg fyrir mótmæli gegn ákvörðun stjórnvalda um að afnema stjórnarskrárákvæði sem tryggt hefur Kasmíringum nokkra sjálfstjórn og sérstöðu allt frá 1947.

Tugþúsundir indverskra hermanna eru í héraðinu og samkvæmt frétt Reuters frá stærstu borg héraðsins, Srinagar, eru hermenn og vopnuð á hverju strái á götum úti og blátt bann er við fjöldasamkomum, sem skilgreindar eru sem samkomur fleiri en fjögurra einstaklinga á götum úti. Skólar og flestar búðir eru lokaðar.

Fréttaritari BBC í héraðinu, Aamir Peerzada, náði að koma skilaboðum til yfirmanna sinna í Nýju-Delí í gegnum landlínusíma í gær og sagði: „Enginn veit hvað er að gerast í öðrum hlutum héraðsins – við getum ekki talað við neinn. Fólk er uggandi – það veit ekki hvað er að gerast eða hvað er að fara að gerast.“ Fólk ættað frá Kasmír sem býr annarsstaðar í Indlandi segist ekki geta náð sambandi við ættingja sína.

Indverskir hermenn eru á hverju strái til þess að koma …
Indverskir hermenn eru á hverju strái til þess að koma í veg fyrir uppþot vegna ákvörðunar stjórnvalda um að afturkalla sjálfsstjórn héraðsins. AFP

Kínverjar standa með Pakistönum

Pakistan og Kína hafa fordæmt aðgerðir ríkisstjórnar Narendar Modi harðlega, en Kínverjar eru dyggir bandamenn Pakistana. „Aðgerðir Indverja eru óásættanlegar og munu ekki hafa neitt lagalegt gildi,“ sagði Hua Chunying talsmaður utanríkisráðuneytis Kína í yfirlýsingu og fékk til baka hörð viðbrögð frá indverskum stjórnvöldum um að málefni Kasmír væru innanríkismál Indverja.

„Indland tjáir sig ekki um innanríkismál annarra ríkja og býst við því að önnur ríki geri slíkt hið sama,“ sagði Raveesh Kumar, talsmaður utanríkisráðuneytis Indlands.

Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, segir aðgerðir Indverja brjóta í bága við alþjóðalög og að Pakistanar íhugi að fara með málið fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Kasmír-hérað liggur á milli Indlands og Pakistans og bæði ríkin gera tilkalls til svæðisins í heild sinni, en stjórna sitt hvorum helmingnum. Indverski hluti héraðsins er eina svæðið í Indlandi þar sem múslimar eru í meirihluta og þar hafa uppreisnarmenn um margra áratuga skeið ráðist gegn indverskum hermönnum og barist fyrir sjálfstæði héraðsins.

Mótmælendur brenna fána Indlands og mynd af Narendar Modi í …
Mótmælendur brenna fána Indlands og mynd af Narendar Modi í Lehore í Pakistan í gær. AFP
mbl.is