Johnson á fund Macron

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, mun heimsækja forseta Frakklands, Emmanuel Macron, í París í dag en í gær ræddi Johnson við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín. Þar kom fram að Merkel teldi mögulegt að finna lausn innan 30 daga á Brexit-deilunni. 

Talið er að Macron taki Johnson ekki jafn vel og Merkel gerði í gær en í gær hafnaði Macron kröfum Johnsons um að Evrópusambandið hæfi að nýju viðræður um landamæri Írlands. Segir Macron að ESB hafi alltaf komið hreint fram þar, að ekki yrði samið um þau. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, mættu …
Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, mættu saman á fund fréttamanna í Berlín í gær. AFP

Johnson viðurkenndi eftir fund þeirra Merkel að leiðtogar Evrópusambandsins legðu fast að bresku stjórninni að finna „framkvæmanlega“ lausn á því hvernig tryggja ætti opin landamæri milli Norður-Írlands og Írska lýðveldisins. 

Boris Johnson áréttaði á fundinum andstöðu sína við umdeilt ákvæði í útgöngusamningi ESB við Theresu May sem á að tryggja að landamæri Norður-Írlands og Írska lýðveldisins verði opin eftir Brexit sem á að taka gildi 31. október næstkomandi. 

Um helgina munu leiðtogarnir þrír; Johnson, Macron og Merkel, eiga fund með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, sem er eindreginn stuðningsmaður Johnson og Brexit ásamt forsætisráðherra Kanada, Ítalíu og Japans á fundi G7-ríkjanna í franska strandbænum Biarritz.

mbl.is