Rannsaka 400 þyrlur Airbus eftir þyrluslys

Þyrluframleiðandinn Airbus hyggst skoða 400 þyrlur eftir þyrluslys.
Þyrluframleiðandinn Airbus hyggst skoða 400 þyrlur eftir þyrluslys. AFP

Evr­ópski flug­véla- og þyrlu­fram­leiðand­inn Airbus hefur kallað eftir að nokkrar gerðir loftfara  verði skoðaðar sem fyrst. Ástæðan er sú að Airbus-þyrla af gerðinni H125 fórst í Noregi skammt frá bænum Alta 31. ágúst þar sem sex manns létust.

Ekki liggur fyrir hver orsök slyssins er en óskað hefur verið eftir nánari skoðun á þremur gerðum frá framleiðandanum sem eru H125- (AS350 B3e), AS550- og H130-þyrlur. Talið er að um 400 loftför sé að ræða.  

„Þetta eru varúðarráðstafanir í ljósi frumniðurstaðna rannsóknarinnar,“ segir í tilkynningu frá Airbus. Samkvæmt upplýsingum frá norsku flugslysarannsóknarnefndinni stendur rannsókn enn yfir. Þyrlan sem fórst var nýleg og var með skráðan flugtíma 73 klukkustundir, sem telst ekki mikið.  

Þyrluflugið var í tengsl­um við tón­list­ar­hátíðina Høst­sprell sem halda átti í Alta. Hátíðinni var frestað í kjöl­far slyss­ins. Farþegarnir voru um tvítugt og þyrluflugmaðurinn var sænskur.  

Airbus þyrlur Landhelgisgæslu Íslands eru ekki af þessum fyrrnefndu gerðum. Tvær þeirra eru af gerðinni H-225 og ein er AS-332. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Gæslunnar.  

mbl.is