Mótmælendur fluttu tónlist og föndruðu

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglunnar fyrir utan verslunarmiðstöð í Hong Kong í dag. Til stóð að trufla starfsemina á alþjóðaflugvellinum en mótmælendur höfðu ekki erindi sem erfiði. Nokkrir veifuðu kínverska fánanum og fjölmenntu á lestarstöðvar. 

Lögreglan skaut gúmmíkúlum og beitti táragasi á mótmælendur í norðurhluta borgarinnar Sha Tin seinnipartinn í dag. Fyrr um daginn höfðu mótmælin farið friðsamlega fram þar sem fólk söng og föndraði origami-trönur í verslunarmiðstöðinni áður en átök brutust út. 

Lögreglan herti eftirlit á flugvellinum og yfirvöld fyrirskipuðu að ferðum lesta og hópferðabíla að flugvellinum yrði fækkað til að koma í veg fyrir að mótmælendum tækist ætlunarverk sitt. Mótmælendur hafa iðulega flykkst á flugvöllinn, sem er sá áttundi strærsti í heimi, til að vekja athygli á málstað sínum.  

Þetta er 16. helgin í röð sem mótmælt er í Hong Kong. 

Upp­haf mótmælanna má rekja til laga­frum­varps sem heim­ila átti framsal meintra brota­manna til meg­in­lands Kína en þau þróuðust síðan upp í ákall um aukn­ar lýðræðis­um­bæt­ur og að kín­versk stjórn­völd létu borg­ina af­skipta­lausa. 1.300 hafa verið hand­tekn­ir frá því að mót­mæl­in hóf­ust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert