Áreitni og heimskulegur eltingarleikur

Mike Pompeo.
Mike Pompeo. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakar þingmenn Demókrata um áreitni, eftir að þeir birtu stefnu þar sem þess er krafist að fá afhent gögn sem sýna fram á samskipti Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna við Volodimír Zelenskí forseta Úkraínu. 

Trump er sakaður um að hafa þrýst á Zelenskí í sím­tali á dög­un­um að láta rann­saka bæði Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkkjanna og Hunter son hans vegna tengsla þess síðarefnda við úkraínska gasfyr­ir­tækið Burisma.

Pompeo segir þingmennina áreita starfsfólk utanríkisráðuneytisins og fara fram með ofbeldi gegn því með því að krefja það um gögn í stað þess að leita til lögfræðinga ráðuneytisins. „Þetta er áreitni,“ sagði Pompeo í kvöld þar sem hann var staddur í opinberri heimsókn í Aþenu í Grikklandi. „Og ég læt ekki koma þannig fram við mitt fólk.“

Pompeo sagði hugmyndir um ákæru á hendur forsetanum „heimskulegan eltingaleik“ og að þessi umræða drægi athyglina frá mikilvægum málum á borð við leiðir til að bæta lífskjör og efnahagsmál. 

mbl.is