Krefjast svara í kjölfar hnífaárásar

Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, kemur fyrir tvær þingnefndir í vikunni …
Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, kemur fyrir tvær þingnefndir í vikunni vegna árásarinnar í höfuðstöðvum lögreglunnar fyrir helgi. AFP

Aukinn þrýstingur hefur verið settur á stjórnvöld í Frakklandi að útskýra af hverju Mickael Harpon, 45 ára gamall fransk­ur karl­maður sem réðst á sam­starfs­fólk sitt á aðallög­reglu­stöðinni í Par­ís á fimmtudag með þeim af­leiðing­um að fernt lét lífið, hafði ekki vakið upp grunsemdir innan frönsku lögreglunnar.

Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk. Harpon starfaði hjá lögreglunni frá 2003 og var sér­fræðing­ur í upp­lýs­inga­tækni. Hann hafði verið í sam­skipt­um við fé­lags­skap salafista, sem er rót­tæk hreyf­ing mús­líma og snú­ist til mús­líma­trú­ar fyr­ir um áratug.

Lögregla skaut árásarmanninn til bana við höfuðstöðvar lög­regl­unn­ar í Par­ís …
Lögregla skaut árásarmanninn til bana við höfuðstöðvar lög­regl­unn­ar í Par­ís á fimmtudag. Hann stakk fjóra lög­reglu­menn til bana áður en lög­regla náði að stöðva hann. Árás­in átti sér stað um há­deg­is­bil og er hún sú mann­skæðasta sem franska lög­regl­an hef­ur orðið fyr­ir um ára­bil. AFP

Heitir því að auka allt eftitlit innan lögreglunnar

Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, kemur fyrir tvær þingnefndir í vikunni vegna árásarinnar. Hann viðurkennir að eftirlitshlutverk stofnunarinnar brást og lofar að eftirlit með öllum atvikum sem teljast geta óeðlileg verði aukið. 

Castaner hefur verið gagnrýndur fyrir að segja að aldrei hafi verið tilefni til að gruna Harpon um eitthvað misjafnt. Síðar kom í ljós að Harpon hafði rétt­lætt árás­ina á rit­stjórn­ar­skrif­stof­ur franska blaðsins Charlie Hed­bo árið 2015. Það var ekki tilkynnt og heldur ekki breytingar þegar Harpon breytti hegðun sinni, fram­komu og klæðaburði ný­verið. 

„Viðvörunarmerkin áttu að vera nægjanleg til að hefja ítarlega rannsókn,“ viðurkenndi Castaner í útvarpsviðtali í dag. „Öllum viðvörunarmerkjum verður umsvifalaust veitt athygli,“ bætti hann við. Ráðherrann segist ekki ætla að segja af sér vegna árásinnar, líkt og farið hefur verið fram á. 

Castaner kemur fyrir leyniþjónustunefnd franska þingsins á morgun. „Við munum reyna að finna hvar  vandinn liggur,“ segir Christian Cambon, formaður nefndarinnar.

Á fimmtudag kemur hann fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Í tilkynningu frá nefndinni segir að nefndin muni leita svara hvernig þær aðstæður gátu skapast sem leiddu til þess að árás var framin í höfuðstöðvum lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert