Stolnum flutningabíl ekið í þvögu

Frá vettvangi í Limburg í kvöld.
Frá vettvangi í Limburg í kvöld. AFP

Stolnum flutningabíl var ekið inn í hóp kyrrstæðra bíla í miðbæ þýsku borgarinnar Limburg í kvöld með þeim afleiðingum að nokkrir særðust. Lögregla hefur handsamað árásarmanninn.

Lögreglan í Limburg, rúmlega 30 þúsund manna bæ skammt norðaustan við Frankfurt, sagði að of snemmt væri að segja eitthvað til um ástæðu árásarinnar. Til þess vantaði frekari upplýsingar.

Rannsókn á tildrögum þess að flutningabílnum var ekið á bíla stendur yfir en lögregla hefur meðal annars safnað saman framburði vitna að atvikinu.

Samkvæmt þeim kom karlmaður keyrandi á flutningabíl rétt fyrir klukkan hálfsex að staðartíma og ók af miklum krafti á bíla sem biðu við gatnamót til móts við lestarstöðina í bænum.

Samkvæmt frétt AFP voru nokkrir fluttir á sjúkrahús en ekki kom fram hversu alvarleg meiðsli þeirra voru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka