NATO krefst þess að Rússar fari af Krímskaga

Jens Stoltenberg ræddi við fréttamenn í hafnarborginni Odessa í Úkraínu …
Jens Stoltenberg ræddi við fréttamenn í hafnarborginni Odessa í Úkraínu í dag. AFP

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segist fagna því að her Úkraínu hefur dregið úr umsvifum sínum á Krímskaganum, í austurhluta landsins og að aðskilnaðarsinnar í landinu, sem studdir eru af rússneskum stjórnvöldum hafi gert slíkt hið sama. NATO krefjist þess að Rússar dragi allt sitt herlið frá svæðinu. 

Fyrirhugað er að Volodimír Selenskí forseti Úkraínu og Vladimír Pútín forseti Rússlands hittist í fyrsta sinn og ræði stöðu mála á svæðinu, en undanfarin fimm ár hafa verið átök á milli úkraínska stjórn­ar­hers­ins og rúss­neskra aðskilnaðarsinna sem hafa kostað 13.000 manns lífið. 

„Við fögnum allri viðleitni í átt að minni spennu á svæðinu,“ sagði Stoltenberg sem nú er staddur í úkraínsku hafnarborginni Odessa. „En við áttum okkur á því að enn er langt í land, því enn er vopnahlé rofið. Það er skýrt af hálfu NATO að Rússar beri ábyrgð og að þeim beri að kalla til baka allt sitt herlið.“

Það var eitt af kosningaloforðum Selenskís, en hann var kosinn forseti Úkraínu síðastliðið vor, að binda enda á átök við aðskilnaðarsinna á Krímskaganum. Hann ít­rekaði í ræðu sem hann hélt eftir að úrslit forsetakosninganna voru ljós að Úkraína viður­kenndi ekki yf­ir­ráð Rússa yfir Krímskag­an­um né held­ur sjálf­skipað lýðveldi í austri. 

mbl.is