Rannsakað sem hryðjuverk

AFP

Árásin á herstöð í Flórída á föstudag er rannsökuð sem hryðjuverk, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni.

Sádiarabískur hermaður sem var í þjálfun á herstöðinni í Pensacola skaut þrjá hermenn til bana áður en hann var skotinn til bana.

Sérfræðingur hjá FBI, Rachel Rojas, segir að FBI sé að rannsaka hvort hann hafi verið einn að verki eða tengdist vígasamtökum. Að hennar sögn hafa nokkrir verið yfirheyrðir í tengslum við málið en enginn handtekinn. Um er að ræða Sádi-Araba sem voru í herstöðinni þegar árásin var gerð. 

Upplýst hefur verið um nöfn þeirra sem létust: Joshua Kaleb Watson, 23 ára, Mohammed Sameh Haitham, 19 ára, og Cameron Scott Walters, 21 árs.

Á blaðamannafundi í gær kom fram að árásarmaðurinn Mohammed Alshamrani, 21 árs, hafi keypt byssuna með löglegum hætti í Bandaríkjunum. Um er að ræða 9 mm skammbyssu.

mbl.is