Segjast hafa skotið vélina óvart niður

Írönsk yfirvöld hafa játað að farþegaþotunni hafi verið grandað.
Írönsk yfirvöld hafa játað að farþegaþotunni hafi verið grandað. AFP

Íranar segja að herinn hafi óvart skotið niður úkraínsku farþegaþotuna en með henni fórust allir um borð, 176 manns. Þetta kemur fram í frétt íranska ríkissjónvarpsins.

Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum kemur fram að þetta hafi verið mannleg mistök eftir að farþegaþotan flaug nálægt viðkvæmum stöðum sem tilheyra írönsku byltingarvörðunum. Fyrir mistök hafi verið talið að um óvinveitt skotmark væri að ræða og því hafi farþegaþotunni verið grandað með flugskeyti. Þeir sem bera ábyrgð á þessum mistökum verði látnir gjalda þess. 

Skelfileg og ófyrirgefanleg mistök

Áður höfðu Íranar hafnað slíkum ásökunum — að flugskeyti á þeirra vegum hafi grandað farþegaþotunni skammt frá höfuðborginni Teheran. 

Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir að þjóðin iðrist innilega fyrir að hafa skotið niður úkraínsku farþegaþotuna sem séu skelfileg og ófyrirgefanleg mistök. Rannsókn verði haldið áfram og þeir sóttir til saka sem beri ábyrgð. 

Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, baðst afsökunar fyrir hönd landsins í morgun og sendir samúðarkveðjur til þeirra sem urðu fyrir þessum mannlegu mistökum. „Þetta er dapur dagur,“ skrifar Zarif á Twitter. Mannleg mistök gerð á erfiðum tímum. Hættuleg áhættusækni Bandaríkjamanna ber ábyrgð á þessum hörmungum, skrifar hann einnig og biður fjölskyldur allra fórnarlambanna og annarra sem þetta hafði áhrif á afsökunar.

Ættingjar og vinir þeirra sem fórust komu saman í Ottawa …
Ættingjar og vinir þeirra sem fórust komu saman í Ottawa í Kanada en 57 Kanadamenn létust. AFP

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, segir að öll kanadíska þjóðin syrgi og þetta sé atburður sem snerti alla þjóðina. Hann krefst þess að gagnsæi ríki um orsök þess að flugvélin var skotin niður og bóta fyrir fjölskyldur þeirra sem létust.

Formaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins, Konstantin Kosachev, segir að Íranar verði að læra af mistökunum. Ef niðurstöður flugrita og rannsókn á flugslysinu sýni ekki fram á að flugvélin hafi verið skotin viljandi niður eigi að ljúka þessu máli. Segist hann vonast til þess að allir aðilar læri sína lexíu af þessum mistökum. 

Forseti Úkraínu krefst þess að þeir sem beri ábyrgð verði dregnir til ábyrgðar og að bætur verði greiddar til þeirra sem eiga um sárt að binda. 

Volodímír Zelenskí segist gera þá kröfu að stjórnvöld í Íran refsi þeim sem beri ábyrgð á að hafa grandað úkraínsku farþegaþotunni og greiddar verði miskabætur. Að menn verði dregnir fyrir dóm og bættur greiddar. 

mbl.is