Tveir greindir með kórónaveiruna í Frakklandi

Sjúkrahúsið í borginni Bordeaux í Frakklandi þar sem einn sjúklingur …
Sjúkrahúsið í borginni Bordeaux í Frakklandi þar sem einn sjúklingur er nú meðhöndlaður vegna kórónaveirunnar. AFP

Tvö tilfelli kórónaveirunnar hafa verið staðfest í Frakklandi, en þetta sagði Agnez Buzyn, heilbrigðisráðherra Frakklands, í kvöld. Annar sjúklingurinn greindist í borginni Bordeaux, en hinn í París. Þetta eru fyrstu staðfestu tilfelli veirunnar í Evrópu.

Greint var frá því finnskum fjölmiðlum í dag að kínverskir ferðamenn frá borginni Wuhan væru mögulega smitaðir af veirunni, en í kvöld hefur verið greint frá því að svo er ekki.

Að minnsta kosti 26 manns hafa látist af þeim yfir 900 sem greinst hafa með kórónaveiruna sem á rætur sínar að rekja til kínversku borgarinnar Wuhan.

Aukinn viðbúnaður hérlendis

Landlæknisembætti greindi frá því í dag að komufarþegar á Keflavíkurflugvelli fái nú skilaboð þess efnis að ef þeir séu með merki öndunarfærasýkingar, hafi verið í Wuhan síðustu 14 daga eða umgengist einhverja með sýkinguna þurfi þeir að undirgangast læknisfræðilegt mat á flugvellinum. Það læknisfræðilega mat gæti leitt til þess að fólk verði sett í einangrun.

Einnig kemur til greina að setja einkennalaust fólk í sóttkví, ef það hefur verið á ferð í Wuhan undanfarna fjórtán daga eða samvistum við einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu.

Landlæknisembættið sagði í tilkynningu sinni í dag að þrátt fyrir upp­lýs­ing­ar um aukna út­breiðslu hinn­ar nýju veiru séu ekki vís­bend­ing­ar um að hún sé hættu­legri en áður hafi verið talið.

Agnes Buzyn, heilbrigðisráðherra Frakklands, staðfesti að tveir hefðu verið greindir …
Agnes Buzyn, heilbrigðisráðherra Frakklands, staðfesti að tveir hefðu verið greindir með veiruna þar í landi til þessa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert