2.000 látnir úr kórónuveirunni

Flestir sem smitast af veirunni virðast fá væg einkenni.
Flestir sem smitast af veirunni virðast fá væg einkenni. AFP

2.000 hafa nú látist úr kórónuveirunni COVID-19, en heilbrigðisyfirvöld í Kína tilkynntu um 132 dauðsföll í Hubei-héraði, þar sem veiran á upptök sín í borginni Wuhan. Þá var tilkynnt um 1.693 ný tilfelli í héraðinu og er þá fjöldi smitaðra kominn yfir 74 þúsund. Langflest tilfellin hafa komið upp í Hubei-héraði, en niðurstöður rannsóknar kínverskra stjórnvalda sýna fram á að um 80 prósent þeirra sem smitist finni aðeins fyrir vægum einkennum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Fjölgun varð á dauðsföllum á milli daga en í gær fækkaði þeim og vonast var til að farið væri að hægja á faraldrinum. Smitum utan Hubei-héraðs virðist hins vegar fara fækkandi og heilbrigðisyfirvöld í Kína telja það merki um að þau hafi náð tökum á útbreiðslu veirunnar.

Forseti Kína, Xi Jinping, sagði í símaviðtali við forsætisráðherra Bretlands í dag að þær aðgerðir sem gripið hefði verið til í Kína hefðu augljóslega borið árangur. Alþjóðaheilbrigðismálstofnunin WHO segir þó of snemmt að segja til um það hvort faraldurinn sé í rénun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert