Fjölskyldan fyrirgefur morðingjunum

Sonur blaðamannsins Jamals Khashoggi segir að fjölskyldan fyrirgefi morðingjunum en …
Sonur blaðamannsins Jamals Khashoggi segir að fjölskyldan fyrirgefi morðingjunum en Hatice Cengiz, unnusta blaðamannsins, segir það ekki koma til greina og hyggst berjast áfram fyrir réttlætinu. AFP

Sonur sádiarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi segir fjölskylduna fyrirgefa morðingjum föður síns. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Salah Khashoggi birtir á Twitter. 

Khashoggi var myrt­ur á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­b­úl í Tyrklandi af sádi­ar­ab­ísk­um út­send­ur­um í október 2018. Lík hans hef­ur enn ekki fund­ist. 

Tyrk­nesk­ir sak­sókn­ar­ar hafa ákært 20 ein­stak­linga, þar á meðal tvo nána aðstoðar­menn Mohammed bin Salm­an, krón­prins Sádi-Ar­ab­íu, fyr­ir aðild að morðinu á blaðamann­in­um Jamal Khashoggi sem myrt­ur var árið 2018. Fimm höfðu áður verið dæmd­ir til dauða fyr­ir morðið á Khashoggi, en krón­prins­inn tók fulla ábyrgð á morðinu í sjón­varps­viðtali. Hann þver­tók þó fyr­ir að hafa skipu­lagt morðið.

Í yfirlýsingunni vísar Salah í Allah: „Ef manneskja fyrirgefur og sættir sig við orðinn hlut verður sá hinn sami verðlaunaður af Allah. Þess vegna fyrirgefum við, synir Khashoggis, þeim sem myrtu föður okkar.“ 

Hatice Cengiz, unnusta Khashoggis, tekur í annan streng og segir að enginn hafi rétt á að fyrirgefa morðingjum. „Ég og aðrir munum ekki hætta fyrr en réttlæti verður náð,“ segir Cengiz m.a. á Twitter.   

Salah hefur áður sagt að hann beri traust til dómskerfisins í Sádi-Arabíu. Washington Post fjallaði um börn Khashoggis í fyrra þar sem fram kom að þau hafi þegið gjafir frá stjórnvöldum fyrir margar milljónir, meðal annars hús. Salah hefur þvertekið fyrir að hafa þegið einhvers konar sáttagreiðslu frá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu.

mbl.is