Hættustig og útgöngubann

AFP

Útgöngubann verður sett á að næturlagi í næststærstu borg Ástralíu þar sem ekkert lát er á nýsmitum í borginni. Lýst hefur verið yfir hættustigi í Victoria og viðbúnaður aukinn.

For­sæt­is­ráðherra Victoria-rík­is, Daniel Andrews, kynnti nýjar reglur í dag og í fyrsta skipti síðan kórónuveirufaraldurinn hófst í byrjun árs hefur verið sett bann við brúðkaupum.

Eftirlit í Melbourne.
Eftirlit í Melbourne. AFP

Yfir fimm millj­ón­um íbúa Mel­bour­ne hefur verið gert að halda sig heima frá því snemma í júlí. Það hefur hins vegar ekki dugað til þar sem nýjum kórónuveirusmitum fjölgar stöðugt. Er því gripið til þess ráðs nú að setja á útgöngubann frá því klukkan 20 á kvöldin til fimm á morgnana næstu sex vikurnar. Á hverjum degi hafa verið staðfest hundruð nýrra smita undanfarið í borginni. 

Andews segir að nú sé í gildi hættustig í ríkinu og ráðstafanir sem því fylgja verði í gildi til 13. september vegna óásættanlegrar fjölgunar smita í ríkinu. 

AFP

Íbúar Melbourne mega hreyfa sig í klukkutíma á dag en mega ekki fara lengra en fimm km frá heimili sínu. Reglurnar taka gildi í kvöld. Aðeins einn heimilismaður má fara í matvöruverslun og miðað er við eina verslunarferð á dag. Sú verslun má ekki vera lengra en 5 km frá heimili viðkomandi.

Kennsla flestra grunn-, framhalds- og háskóla í Melbourne verður á netinu en stutt er síðan skólastarf hófst í kennslustofum að nýju eftir að hafa legið niðri vikum saman vegna kórónuveirufaraldursins. Bæði leikskólar og ungbarnastofur verða lokaðar frá og með fimmtudegi. 

Langar biðraðir voru fyrir utan Costco í Melbourne í dag …
Langar biðraðir voru fyrir utan Costco í Melbourne í dag en nýju reglurnar taka gildi í kvöld. AFP

Eins og áður sagði verða brúðkaup bönnuð en í fyrstu bylgju COVID-19 í borginni var miðað við að fimm mættu vera viðstaddir brúðkaup. Nú eru þau bönnuð með öllu. Að sögn Andrews verða kynntar nýjar og hertar reglur á vinnustöðum á morgun. Talið er að öllum vinnustöðum verði lokað fyrir utan þá sem nauðsynlegt er að halda opnum. 

Alls var 671 nýtt smit staðfest í Victoria síðasta sólarhringinn og 7 dauðsföll af völdum COVID-19. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert