Pútín reiðubúinn að senda lögreglulið yfir landamærin

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur rætt við starfsbróður sinn í …
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur rætt við starfsbróður sinn í Hvíta-Rússlandi og boðið honum aðstoð. AFP

Valdimír Pútín Rússlandsforseti segir að hann sé reiðbúinn að senda rússneskt lögreglulið til Hvíta-Rússlands til að aðstoða þarlend yfirvöld, en Pútín greindi frá því að hann væri búinn að setja á laggirnar sérstakan lögregluhóp í þeim tilangi. Hann tekur þó fram að það sé ekki tímabært að senda slíkt lið til nágrannaríkisins. 

Pútín lét ummælin falla í rússneska ríkissjónvarpinu, Rossiya 1TV. Hann greindi frá því að Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefði óskað eftir aðstoð. Hann „bað mig um að setja á laggirnar sérstaka varalið lögreglumanna,“ sagði Pútín og bætti við að hann hefði orðið við því. 

„Við höfum jafnframt sammælst um að það verði ekki kallað út nema ástandið fari úr böndunum,“ sagði Pútín. Þetta kemur fram á vef BBC.

Hörð mótmæli brutust út í Hvíta-Rússlandi í kjölfar forsetakosninganna sem fóru þar fram 9. ágúst en því hefur verið haldið fram að brögð hafi verið í tafli og niðurstöður kosninganna falsaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert