Draga úr aðgengi að áfengi í Kaupmannahöfn

Barir og veitingastaðir verða lokaðir frá klukkan 22 í Kaupmannahöfn.
Barir og veitingastaðir verða lokaðir frá klukkan 22 í Kaupmannahöfn. AFP

Borgarstjórinn í Kaupmannahöfn kynnti í dag áform um að banna sölu á áfengi í verslunum í hluta miðborgarinnar á kvöldin. Er þetta liður í baráttunni gegn ofbeldi.

„Við sjáum að við ráðum ekki lengur við vandamál tengd næturlífinu í sumum hlutum Kaupmannahafnar, einkum og sér í lagi í miðborginni. Hávaði hefur aukist og meira er af drukknu fólki á götum úti,“ segir Frank Jensen, borgarstjóri Kaupmannahafnar, í tilkynningu. Hann segir þessu fylgja algjörlega óásættanlegt ofbeldi. 

Frétt DR

Tillaga borgarstjórnar er nú í höndum dómsmálaráðuneytisins en hún felur í sér að bannað verður að selja áfengi í verslunum í þeim hlutum borgarinnar sem eru vinsælir meðal skemmtanaglaðra frá klukkan 20 á kvöldin. Bannið nær aðeins til verslana ekki bara né veitingastaða.

Borgarstjórinn í Kaupmannahöfn telur að svipaðar reglur eigi að setja í öðrum stórum borgum í Danmörku. Með þessu er í raun verið að endurvekja að hluta fyrra fyrirkomulag. Því allt til ársins 2005 var bannað að selja áfengi í verslunum frá klukkan 20 til 6 að morgni. 

Borgarstjórinn í Kaupmannahöfn vill láta banna sölu á áfengi í …
Borgarstjórinn í Kaupmannahöfn vill láta banna sölu á áfengi í verslunum í miðborginni. Áfengissalan eykur ofbeldi í borginni að hans sögn. AFP

Jensen vill jafnframt að öryggisvörum á vegum sveitarstjórna verði heimilt að sekta þá sem valda ónæði á almannafæri. Í dag er það aðeins lögregla sem hefur heimildir til að sekta fyrir slík brot.

Aðgerðir til að sporna við áhrifum kórónuveirunnar hafa beint kastljósinu að næturlífinu og þeim vandamálum sem því fylgja. Aftur á móti er ekkert minnst á COVID-19 í tilkynningu borgarstjórnar.

Í Kaupmannahöfn er er börum og veitingastöðum gert að loka klukkan 22 vegna COVID-19 samkvæmt reglum sem tóku gildi í dag. Í Óðinsvéum, sem er þriðja stærsta borg Danmerkur, mega staðir vera opnir til miðnættis. Annars staðar í landinu er heimilt að hafa staði opna til 2 að nóttu. 

Frétt danska ríkisútvarpsins

Ólíkt því sem er víða á Norðurlöndunum þá er áfengissala frjáls í Danmörku.

mbl.is