Breivik sækir um reynslulausn

Anders Breivik heilsar eftir sinni sannfæringu. Fjöldamorðinginn hefur nú óskað …
Anders Breivik heilsar eftir sinni sannfæringu. Fjöldamorðinginn hefur nú óskað eftir reynslulausn eftir að hafa brátt afplánað tíu ára lágmarkstíma dómsins sem hann hlaut, sem var svokallaður varðveisludómur, eða forvaring. Slíka dóma má framlengja í fimm ára þrepum eins oft og þurfa þykir sé talin hætta á að brotamaður endurtaki háttsemi sína. AFP

Norski fjöldamorðinginn og þjóðernisöfgamaðurinn Anders Behring Breivik, eða Fjotolf Hansen eins og hann heitir formlega í norskri þjóðskrá síðan í júní 2017, hefur sótt um reynslulausn frá fangelsisafplánun sinni fyrir ódæðin í Ósló og á Utøya 22. júlí 2011, þegar hann varð 77 manns að bana.

Breivik hlaut á sínum tíma 21 árs varðveisludóm, eða forvaring, en svo kallast það réttarúrræði sem leysti ákvæði um ævilangt fangelsi af hólmi í norsku hegningarlögunum. Varðveisla, sem formlega telst ekki refsing samkvæmt hegningarlögum, er úrræði sem ætlað er að vernda samfélagið fyrir brotamanni vegna hættu á endurtekinni háttsemi og gerir það kleift að framlengja fangelsisvist brotamanns í fimm ára þrepum teljist ekki óhætt að hleypa honum út í mannlegt samfélag. Geta slíkar framlengingar náð ævi hins brotlega á enda.

Hyggst stefna ríkinu á ný

Þegar dómari dæmir varðveislu, eða forvaring, ber honum að kveða upp úr um tímaramma annars vegar, sem í tilfelli Breivik er 21 ár, og hins vegar lágmarkstíma, eða minstetid. Brotamanni má ekki hleypa út fyrr en hann hefur setið lágmarkstímann og að honum loknum er honum heimilt að sækja um reynslulausn. Þegar fullnaðartíminn er hins vegar liðinn, hafi brotamanni ekki verið hleypt út áður, er tímabært að meta hvort fangelsisdvöl skuli framlengd um fimm ár.

Auk þess að sækja um reynslulausn hefur Breivik einnig í hyggju að stefna norska ríkinu á ný vegna brota gegn mannréttindum hans, en kröfur hans í fyrri stefnu, árið 2015, voru ekki teknar til greina fyrir dómstólum og kvað Lögmannsréttur Borgarþings upp lokadóm þar að lútandi 1. mars 2017. Hæstiréttur neitaði að taka við áfrýjun og Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg vísaði kæru um þá neitun frá.

„Ég hef lagt fram beiðni um reynslulausn fyrir hans hönd,“ staðfesti Øystein Storrvik, lögmaður fjöldamorðingjans, við norska dagblaðið VG í gær.

„Hann á rétt á því að dómstóll fjalli um reynslulausn hans að liðnum lágmarkstímanum sem í hans tilfelli er tíu ár. Allir sem dæmdir eru til varðveislu eiga sér slík réttindi og hann kýs að nýta sér þau,“ sagði Storrvik enn fremur.

Segir lögmaðurinn að nýja stefnan á hendur ríkinu snúist um lögmæti þess að halda manni í einangrun í áraraðir en Breivik fékk sína aðra heimsókn í Skien-fangelsinu í Telemark rétt fyrir jól í fyrra og var þar reyndar bara samfangi hans á ferð, en móðir hans heimsótti hann árið 2013.

Segist Storrvik sjálfur þó reglulega heimsækja skjólstæðing sinn í fangelsið svo gestagangurinn er nokkur. „Aðstaða hans við afplánunina hefur ekki skánað svo neinu nemi síðan málið fór fyrir dóm síðast,“ sagði lögmaðurinn og bætti því við að svokölluð úrræði til sárabóta (n. kompenserende tiltak) nægðu ekki til að réttlæta svo langt einangrunartímabil.

Ekki er ljóst hvenær dómstóll tekur beiðni Breivik um reynslulausn fyrir, en sé dvöl hans innan múra talin frá fyrsta degi gæsluvarðhalds, 25. júlí 2011, er tæpt ár í að hann hafi setið inni í tíu ár.

VG

NRK

Dagsavisen

Stavanger Aftenblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert