1.600 hælisleitendur til Kanaríeyja

Spænska landhelgisgæslan fermir farandverkafólk á land í september eftir að …
Spænska landhelgisgæslan fermir farandverkafólk á land í september eftir að því var bjargað af fleyjum sínum. AFP

Rúmlega 1.600 afrískir hælisleitendur hafa nú stigið á land á hinum spænsku Kanaríeyjum á síðastliðnum tveimur dögum, en slíkur fjöldi hefur ekki sést í áratug að sögn starfsmanna neyðarþjónustu.

Fólkið ferðaðist til eyjanna á 20 hálfósjófærum fleyjum og hefur lík eins manns sem tilheyrði hópnum fundist við strendur eyjunnar El Hierro, samkvæmt AFP-fréttaveitunni.

Eyjaklasinn, sem er í um 100 kílómetra fjarlægð frá ströndum Norður-Afríku, hefur fengið á sig öldu farandverkafólks síðustu mánuði eftir að landamærasamningar náðust á milli Evrópusambandsins, Líbíu, Marokkós og Tyrklands.

Meira en 11.000 manns hafa komið sér ólöglega til Kanaríeyja síðan í janúar að sögn spænska innanríkisráðuneytisins, sem er sjöföld fjölgun frá sama tímabili í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert