Hundruð sækja sænska „svartklúbba“

Úr viðtali sænska ríkisútvarpsins við „Kristoffer“ sem skipuleggur leynilega mannfögnuði …
Úr viðtali sænska ríkisútvarpsins við „Kristoffer“ sem skipuleggur leynilega mannfögnuði eða „svartklúbba“ í Stokkhólmi á kórónutímum. Hann hefur þó ekki staðið fyrir slíkri samkomu síðan í ágúst en segir mætinguna góða þegar fréttist af uppákomum. Fólk þyrsti í að komast út á lífið meðan mannkynið gengur um þann dimma dal sem faraldurinn er. Skjáskot/SVT

„Það er siðferðislegt spursmál að brjóta reglur um samkomutakmarkanir á þessum vettvangi,“ sagði Ola Österling, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, í samtali við sænska Aftonbladet á sunnudaginn fyrir viku í umræðu um svokallaða „svartklúbba“, eða svartklubbar á sænsku, leynilegar dansveislur eða „rave“ á tímum kórónufaraldurs, en tilkynningum um slíkar samkomur hefur fjölgað upp á síðkastið.

Sænska ríkisútvarpið SVT tók málið upp nú um helgina með viðtali við „Kristoffer“ sem heitir öðru nafni í þjóðskrá og annast skipulagningu og framkvæmd svartklúbbanna þar sem mörg hundruð manns koma saman, eins og sjá má á myndum sem fjölmiðlum hafa borist, og stíga hrunadans í áfengis- eða lyfjavímu, jafnvel hvoru tveggja.

„Auðvitað skjóta „speakeasy-barir“ og svartklúbbar upp kollinum fyrir tilstilli fólks sem kærir sig kollótt [um samkomutakmarkanir],“ segir Kristoffer við SVT en hann hefur þó að eigin sögn ekki staðið fyrir slíkri leynisamkomu síðan í ágúst. Með speakeasy vísar hann til neðanjarðaröldurhúsa í Bandaríkjunum á bannárum þriðja áratugar síðustu aldar sem svo voru kölluð.

Erfitt að gefa út tölfræði

„Margir vilja koma og þegar spyrst út að til standi að halda samkomu er mætingin góð. [...] Maður finnur alveg fyrir því að fólk þyrstir í að komast út á lífið,“ segir Kristoffer sem þó hefur gert hlé á sinni eigin starfsemi samvisku sinnar vegna. „Það sem er mikilvægast núna er að stöðva útbreiðslu smitsins, ég vona að aðrir hugsi á svipuðum nótum,“ segir hann.

Það gera þó greinilega ekki allir og greinir Aftonbladet frá því að tilkynningum til lögreglu um svartklúbbasamkomur hafi fjölgað það sem af er vetri. „Okkar mat er að unglingasamkomum, dansveislum og öðrum veisluhöldum í stórum húsnæðum hafi fjölgað,“ sagði Österling við Aftonbladet um síðustu helgi.

Úr myndskeiði sem gestur í svartklúbbi að kvöldi 31. október …
Úr myndskeiði sem gestur í svartklúbbi að kvöldi 31. október sendi sænska ríkisútvarpinu. Salurinn er gríðarstór þótt það sjáist illa á þessu skjáskoti og þar dansa hundruð gesta þétt saman. Skjáskot/SVT

Erfitt sé þó að gefa út nákvæma tölfræði þar sem samkomur þessar séu jú haldnar í leyfisleysi og auglýsingum um þær aðeins dreift á samfélagsmiðlum. Sænsku lögreglunni er gert að leysa upp allar almennar samkomur sem fleiri en 50 manns sækja og segir Österling skipuleggjendur svartklúbbanna hafa reynt að komast kringum reglurnar með því að stofna félög sem gestir skrái sig í og þar með sé hægt að kalla einkasamkomu. Hafi lögregla því gjarnan leyst upp samkomur undir þeim formerkjum að áfengi sé selt þar án veitingaleyfis auk þess sem fíkniefnasala fari þar jafnan fram.

„Við förum á vettvang þegar við fáum tilkynningar um leynisamkomur en við fáum hvorki aukið fjármagn né mannskap til að sinna þessu,“ svaraði Österling spurningu blaðamanns um hvers vegna lögreglan legði ekki meiri áherslu á að finna og stöðva samkomurnar. „Við sendum ekki bara tvo lögregluþjóna í svona verkefni,“ sagði hann enn fremur og lauk máli sínu með því að hvetja alla, sem legðu í vana sinn að sækja sænskar neðanjarðarveislur, til að hugsa sinn gang og fylgja reglum sænskra heilbrigðisyfirvalda.

SVT

SVTII (tilkynningum fjölgar)

Aftonbladet

AftonbladetII (lögregla leysir upp samkomu á þriðja hundrað gesta fyrir rúmri viku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert