Takmarkanir á jólahaldi í Þýskalandi

Húsakynni Robert Koch-sóttvarnastofnunarinnar í Berlín.
Húsakynni Robert Koch-sóttvarnastofnunarinnar í Berlín. AFP

Leiðtogar sambandslandanna sextán sem mynda Þýskaland hafa komið sér saman um þau viðmið sem sem munu gilda um samkomubann yfir jólahátíðina. AFP greinir frá þessu en reglurnar hafa ekki verið birtar opinberlega.

Yfirvöld hafa sammælst um að frá og með 23. desember til 1. janúar muni samkomubann miðast við tíu manns  tvöfalt það sem almennt mun gilda í desember. Börn eru þó ekki talin með. Í drögunum segir að ræða þurfi við „trúfélög um aðgerðir til að takmarka samgang í trúarathöfnum og öðrum samkomum á vegum trúfélaga“.

Þá er enn kveðið á um að veitingastaðir, barir og menningarstofnanir verði lokuð auk tilmæla um að skjóta ekki upp flugeldum á fjölförnum götum eða torgum til að koma í veg fyrir hópamyndun. Sumir stjórnmálamenn höfðu farið fram á algjört bann við flugeldanotkun þessi áramótin til að verja sjúkrahús fyrir auknu álagi sem fylgir flugeldaslysum.

Samkomulagið þykir vera málamiðlun milli sambandslandanna en nokkur ríki, sem hafa ekki farið jafnilla út úr kórónuveirufaraldrinum og önnur, höfðu viljað frekari tilslakanir yfir jólin. Tillögurnar verða kynntar á fundi leiðtoga sambandslandanna með Angelu Merkel kanslara á morgun, miðvikudag. Merkel mistókst í síðustu viku að fá leiðtogana til að sammælast um hertar aðgerðir í landinu.

Þjóðverjum hefur tekist að draga nokkuð úr fjölda nýrra smita frá því hertar reglur voru innleiddar í landinu 2. nóvember. Engu að síður er nýgengi veirunnar, fjöldi nýrra smita síðustu 14 daga á hverja 100 þúsund íbúa, rétt ríflega 300, samanborið við 50 hér á landi.

Alls hafa tæplega 943 þúsund tilfelli veirunnar greinst í landinu og næstum 14.400 látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert