Borgundarhólmsbræður fengu 14 ár

Héraðsdómur Rønne á Borgundarhólmi í húsnæði gamla bæjarþingsins við Store …
Héraðsdómur Rønne á Borgundarhólmi í húsnæði gamla bæjarþingsins við Store Torv sem byggt var árið 1834. Þar hlutu bræðurnir Mads og Magnus Møller 14 ára dóm á þriðjudagsmorguninn fyrir hrottalegt manndráp á þessari dönsku Eystrasaltseyju aðfaranótt 23. júní í sumar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Klugschnacker

Dönsku bræðurnir Mads og Magnus Møller, 23 og 25 ára gamlir, hlutu á þriðjudaginn 14 ára fangelsisdóm hvor fyrir Héraðsdómi Rønne á dönsku eyjunni Borgundarhólmi fyrir að myrða hinn dansk-tans­an­íska Phillip Mbuji Johan­sen, 28 ára gamlan, á hrottafenginn hátt í skóglendi skammt frá Rønne aðfaranótt 23. júní í sumar, eins og mbl.is greindi frá í nóvember.

Bræðurnir hlýddu svipbrigðalausir á dómsorðið, að sögn danska ríkisútvarpsins DR, en þeir gáfu þá skýringu á athæfi sínu að Johansen hefði nauðgað móður þeirra. Lögregluyfirvöld Borgundarhólms kváðust hins vegar ekki kannast við þann atburð og ekki hafa móttekið neina kæru eða tilkynningu um slíkt.

„Rétturinn telur, að það hljóti að hafa verið bræðrunum ljóst að verulegar líkur væru á að þeir miklu áverkar, sem þeir veittu Phillip Johansen aðfaranótt 23. júní, væru til þess fallnir að draga hann til dauða,“ sagði meðal annars í rökstuðningi dómenda sem voru einróma um niðurstöðu sína.

„Í þessu máli er engar málsbætur að finna“

Lagði rétturinn áherslu á að þeir Møller-bræður hefðu skilið fórnarlamb sitt eftir í skóginum stórslasað og hjálparlaust auk þess að brenna síma þess og skó og því mátt gera sér ljóst að Johansen fyndist ekki fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir sem var einmitt raunin, en það var árrisull vegfarandi á gönguferð sem fann lík hans um morguninn.

Anne Moe saksóknari krafðist 14 til 16 ára fangelsisrefsingar í málflutningi sínum fyrir héraðsdómi og fékk meðbyr með kröfum sínum. „Í þessu máli er engar málsbætur að finna, eingöngu refsiþyngingarástæður. [...] Ég er eindregið þeirrar skoðunar að refsingin sé hæfilega ákveðin 14 til 16 ár,“ sagði Moe.

Verjendur bræðranna voru hins vegar á öðru máli og töldu 12 ár þyngstu mögulegu refsingu í málinu.

Báðir hyggjast áfrýja

Alls fundust 39 áverkar á líki Johansen, þar af mörg annars og þriðja stigs brunasár. „Auðséð er af áverkunum, að þeir voru veittir á löngu tímabili,“ sagði Christina Jacobsen réttarmeinafræðingur við aðalmeðferð málsins.

Moe saksóknari spurði Jacobsen hvort hún hefði séð merki um svo illa meðferð á manneskju fyrr á sínum ferli. „Nei, það hef ég ekki. Auðvitað sjáum við fleiri dæmi um alvarlegt ofbeldi, en það er sjaldgæft að við fáum inn á okkar borð nokkuð í líkingu við þetta,“ svaraði réttarmeinafræðingurinn.

Að sögn verjenda hyggjast skjólstæðingar þeirra báðir áfrýja dómnum.

DR

TV2

Berlingske

mbl.is