Sóttu upplýsingar úr rakningarappi

Lögreglan gat fylgst með ferðum fólks.
Lögreglan gat fylgst með ferðum fólks. AFP

Embættismenn í Singapúr hafa viðurkennt að lögreglan þar í landi geti nálgast upplýsingar um fólk í gegnum rakningarsnjallforrit. Umrædd forrit voru sérstaklega sett upp til að geta fylgst með ferðum fólks greindist það með kórónuveiruna.

Til að byrja með gekk illa að fá íbúa Singapúr til að notast við forritið sökum hræðslu við misnotkun upplýsinga. Hins vegar jókst notkunin og er nú um 80%. Forrit í sama tilgangi hefur verið í notkun hér á landi, en forrit sem þessi má finna í ýmsum löndum þar á meðal Kína. 

Lögreglan notaði forritið

Í Singapúr tókst loksins að fá meirihluta íbúa til að notast við forritið þegar greint var frá því að ekki væri hægt að notast við upplýsingar úr því. Nú er hins vegar ljóst að lögreglan hefur aðgang að forritinu, til að mynda við rannsóknir mála. 

Vivian Balakrishan, utanríkisráðherra landsins, tjáði sig um málið í gær og viðurkenndi að lögreglan þar í landi hefði notað forritið. Það hefði þó einungis gerst einu sinni, þegar verið var að rannsaka morð. 

Fjölmargir lýsa yfir vonbrigðum

Í kjölfar ummæla Vivian hefur fjöldi mannréttinda- og persónuverndarsamtaka lýst yfir miklum vonbrigðum með málið. Þá hefur nokkur fjöldi fólks tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum þar sem óánægjan virðist töluverð. 

Signapúr hefur sloppið ansi vel í heimsfaraldri kórónuveiru. 58 þúsund einstaklingar hafa greinst með veiruna frá því að faraldurinn kom upp og hafa 29 einstaklingar látist. 

mbl.is