Munu leggja til að Trump verði vikið úr embætti

Samsett mynd af Nancy Pelosi og Donald Trump.
Samsett mynd af Nancy Pelosi og Donald Trump. AFP

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, sagði í gær að hún myndi þrýsta á að Donald Trump verði vikið úr embætti forseta landsins á síðustu dögum valdatíðar hans.

Pelosi sagði í gær að lögð verði fram ályktun í fulltrúadeildinni þar sem ríkisstjórn Bandaríkjanna er beðin um að reka Trump frá völdum vegna vanhæfi til að gegna starfinu samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar vegna þess að hann hvatti stuðningsmenn sína til dáða er þeir réðust inn í þinghúsið 6. janúar.

Ef varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, er þessu ósammála verður reynt að þrýsta á ákæru fyrir embættisglöp í starfi í fulltrúadeildinni segir Pelosi. Hún segir þetta gert til að vernda stjórnarskrá og lýðræði landsins. Til þess þurfi að bregðast hratt við þar sem ógn stafi af forseta landsins.

Trump hefur þegar verið sakaður um embættisglöp í starfi í fulltrúadeildinni en það var í desember 2019 fyrir að þrýsta á leiðtoga Úkraínu um að grafa upp pólitískan óhróður um Joe Biden. Hann var sýknaður af öldungadeildinni þar sem þar voru repúblikanar í meirihluta en demókratar í fulltrúadeildinni. 

Óvíst er hvernig atkvæði myndu falla í dag þar sem jafnvel er búist við að einhverjir repúblikanar gætu stutt tillöguna en mjög ólíklegt er að tillagan verði samþykkt þar sem það þarf tvo þriðju hluta atkvæða öldungadeildarinnar til þess að dæma Trump og reka hann þannig úr embætti.

Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert