Öldungadeildin samþykkir Yellen

Janet Yellen á blaðamannafundi 1. desember þegar tilkynnt var um …
Janet Yellen á blaðamannafundi 1. desember þegar tilkynnt var um tilnefningu hennar. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag Janet Yellen í embætti fjármálaráðherra. Yellen, sem var eitt sinn seðlabankastjóri, er fyrsta konan til að gegna embættinu í 231 árs sögu þess. Yellen var sömuleiðis fyrsta konan til að gegna embætti seðlabankastjóra á árunum 2014 til 2018. 

Yellen mun líklega gegna lykilhlutverki í viðræðum við þingið um fyrirhugaðan örvunaraðgerðapakka Joe Bidens vegna kórónuveirufaraldursins. Í þeim viðræðum mun meðal annars felast að sannfæra þingmenn um ágóða þess að setja 1.900 milljarða Bandaríkjadali í örvunaraðgerðir, þrátt fyrir slæma skuldastöðu bandaríska ríkisins. 

Biden sagði fyrr í dag að hann kysi þverpólitískan stuðning við aðgerðirnar. 

Öldungadeildin samþykkti Yellen með dágóðum meirihluta, þrátt fyrir að demókratar eigi þar aðeins meirihluta fyrir tilstilli úrslitaatkvæðis Kamölu Harris varaforseta. Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni, var á meðal þeirra repúblikana sem studdu tilnefningu Yellen. 

mbl.is