Lést í varðhaldi stjórnvalda

AFP

Ýmis mannréttindasamtök, meðal annars Mannréttindavaktin og Amnesty International, hafa gagnrýnt írönsk stjórnvöld vegna dauða fanga, sem dæmdur var fyrir mótmæli sem fram fóru árið 2018. 

Behnam Mahjoubi, sem var í Sufi Gonabadi-trúarsöfnuðinum, tók þátt í mótmælum á vegum safnaðarins í febrúar 2018 og var í kjölfarið dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hann hóf afplánun í júní á síðasta ári. Mahjoubi lést í varðhaldi eftir að yfirvöld tryggðu honum ekki fullnægjandi læknisaðstoð. 

Fangelsismálayfirvöld í Íran segja að Mahjoubi hafi látist af völdum eitrunar eftir að hafa tekið inn óþekkt lyf. Hann var fluttur á sjúkrahús fyrr í mánuðinum, en Mannréttindavaktin fullyrðir að Mahjoubi, sem var andlega veikur fyrir, hafi látist vegna vanrækslu stjórnvalda. Amnesty International segir að Mahjoubi hafi sætt pyntingum í fleiri mánuði og verið vísvitandi neitað um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. 

Mótmælin í febrúar, sem leiddu til mikillar umræðu um framkomu gagnvart Sufi-samfélaginu, voru ein stærstu trúarlegu mótmæli í landinu á síðustu árum. Fimm lögreglumenn létust og fleiri en 300 voru handteknir. 

mbl.is