Vill að mál systur sinnar verði rannsakað að nýju

Latifa, systir Shamsu, í myndskeiði sem vinir hennar gerðu opinbert …
Latifa, systir Shamsu, í myndskeiði sem vinir hennar gerðu opinbert skömmu eftir að hún var tekin höndum árið 2018.

Latifa Al Maktoum, dótt­ir leiðtoga Dúbaí sem talin er vera í gíslingu föður síns eftir að hún reyndi að flýja furstadæmið árið 2018, hefur biðlað til bresku lögreglunnar um að hefja að nýju rannsókn á máli eldri systur sinnar sem var rænt í Bretlandi fyrir rúmum 20 árum. 

Í bréfi til lögreglunnar í Cambridgeshire segir Latifa að rannsókn málsins gæti leitt til þess að systir hennar Shamsa verði látin laus úr haldi, en henni var rænt af útsendurum föður þeirra Mohammed bin Rashid Al Maktoum á götu í Cambridge þegar hún var 18 ára árið 2000. Shamsa hefur ekki sést opinberlega síðan. 

Í síðustu viku birti BBC myndskeið af Latifu þar sem hún fullyrti að faðir henn­ar hafi haldið henni í gísl­ingu í Dúbaí síðan hún reyndi að flýja fursta­dæmið árið 2018. Hún ótt­ist nú um líf sitt.  Mann­rétt­inda­skrif­stofa Sam­einuðu þjóðanna hef­ur síðan beðið Sameinuðu arabísku furstadæmin um sönnun þess að Latifa sé enn á lífi. 

Fyrir rúmum tveimur áratugum síðan reyndi Shamsa að flýja föður sinn þegar fjölskyldan dvaldi á búgarði í eigu Mohammed í Surrey á Englandi. Shamsa var flutt gegn vilja sínum frá Cambridge tveimur mánuðum eftir flóttatilraunina og með þyrlu til Frakklands, hvaðan henni var flogið með einkaþotu til Dúbaí. Í bréfi Latifu, sem var skrifað árið 2019 og afhent lögreglu af vinum hennar á miðvikudag, segir að systur hennar hafi síðan verið haldið fanginni í Dúbaí. 

Latifa dagsetti bréfið í febrúar 2018 svo að yfirvöld í Dúbaí yrðu þess ekki vör að hún gæti átt í samskiptum við umheiminn úr varðhaldi. Latifa segir að systir hennar hafi sætt pyntingum eftir flóttatilraunina og að henni sé ítrekað byrlað róandi lyfjum. 

Rannsókn á máli Shamsu hófst hjá bresku lögreglunni um hálfu ári eftir að hún var tekin höndum þegar henni tókst að koma skilaboðum til lögfræðings. Málinu var stungið undir stól þegar þeim lögreglumönnum sem sáu um rannsóknina var meinað að fara til Dúbaí. 

Faðir Shamsu og Latifu er valdamikill í Bretlandi. Hann er vinur Elísabetu drottningar og einn stærsti landeigandi á Bretlandi. 

mbl.is