Kallar eftir allsherjarlokun í Svíþjóð

Annie Lööf, formaður sænska Miðflokksins.
Annie Lööf, formaður sænska Miðflokksins. AFP

Annie Lööf, formaður sænska Miðflokksins, kallar eftir því að helstu stofnunum sænsks samfélags verði lokað í tvær til þrjár vikur til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í landinu.

Verslunarmiðstöðvum, veitingastöðum, kaffihúsum, líkamsræktarstöðvum og þvílíku yrði þá lokað tímabundið og þar með endanlega sagt skilið við hina svokölluðu sænsku leið sem hefur falið í sér hófstilltari sóttvarnaaðgerðir en víðast annars staðar með meiri áherslu á tilmæli en boð og bönn.

Lööf viðraði þessar hugmyndir í fréttaskýringaþættinum Agenda í sænska ríkissjónvarpinu í gær. Sagði hún að fyrirtækjum skyldi bætt tjónið að fullu. Miðflokkur hennar ver ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Græningja falli og hefur með því nokkur áhrif á stjórn landsins, en flokknum mætti helst líkja við Viðreisn á íslenska rófinu.

Sænska leiðin svokallaða hefur vakið töluverða athygli í kórónuveirufaraldrinum, þótt nokkuð kunni að hafa dregið úr henni eftir því sem árangurinn lætur lengur á sér standa. Samdóma álit margra er að leiðin hafi komið til ekki síst vegna skorts á lagaheimild fyrir hörðum sóttvarnaaðgerðum í landinu.

Ný lög hafa verið nýtt

Ný sóttvarnalög voru hins vegar samþykkt í Svíþjóð fyrr á árinu en þau veita stjórnvöldum ríkari heimildir til inngripa, til jafns við það sem þekkist í öðrum löndum. Heimildirnar hafa þegar verið nýttar upp að vissu marki og ýmsar takmarkanir í gildi í landinu.

Öllum veitingastöðum ber til að mynda að loka fyrir gesti í sæti klukkan 20:30. Þó má afgreiða pantanir til að taka með heim eftir þann tíma. Þá mega aðeins fjórir sitja á hverju borði á veitingastað, ef staðurinn er með sérinngang, en aðeins einn hafi staðurinn ekki sérinngang (eins og veitingastaðir IKEA).

Engu að síður eru reglur í Svíþjóð enn slakari en víðast annars staðar, sérstaklega ef miðað er við smittíðni. Nýgengi kórónuveirunnar í Svíþjóð er 488, hærra en í langflestum Evrópuríkjum. Til samanburðar er nýgengið um 6 á Íslandi.

Engin grímuskylda er heldur í Svíþjóð en þeim tilmælum er beint til fólks að nota grímur í almenningssamgöngum á háannatíma og í margmenni. Samkvæmt heimildarmönnum mbl.is í Svíþjóð er það einkum eldra fólk og fólk af erlendum uppruna sem fylgir þeim tilmælum.

mbl.is

Bloggað um fréttina