Hafði áður lagt hald á vopn í eigu árásarmannsins

AFP

19 ára karlmaður, sem skaut átta til bana í banda­rísku borg­inni Indi­ana­pol­is á fimmtu­dags­kvöld við hús­næði fyr­ir­tæk­is­ins FedEx, hafði keypt tvö lögleg skotvopn þrátt fyrir að lögregla hefði áður lagt hald á skotvopn í hans eigu.

Móðir mannsins, Brandons Holes, hafði varað lögreglu við andlegu ástandi sonar síns í mars á síðasta ári og lögregla í kjölfarið tekið af honum skotvopn sem hann átti. Þrátt fyrir það gat Hole keypt löglega tvö sjálfvirk skotvopn, annað í júlí og hitt í september. 

Í yfirlýsingu á laugardag baðst fjölskylda Hole afsökunar fyrir „þjáningu og særindi“ sem hann olli.

Hole, sem var fyrrverandi starfsmaður FedEx, skaut af handahófi við húsnæði fyrirtækisins áður en hann svipti sig lífi, örfáum mínútum áður en lögregla kom á vettvang. 

Á meðal fórnarlamba Holes voru fjórir úr samfélagi síka í borginni, tveir 19 ára háskólanemar og faðir ungs barns. Ekki liggur fyrir hvað bjó að baki árásinni. 

BBC greinir frá því að móðir Holes hafi í mars á síðasta ári greint lögreglu frá áhyggjum af syni sínum. Hún óttaðist þá að Hole myndi reyna að verða sjálfum sér að bana með því að ögra lögreglu. Hole var handtekinn og sem áður segir var skotvopn hans gert upptækt. Mánuði síðar var Hole yfirheyrður af bandarísku alríkislögreglunni, sem taldi að enginn glæpur hefði verið framinn og að Hole aðhylltist ekki öfgafulla hugmyndafræði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert