Húsleitin hjá Giuliani „virkilega ósanngjörn“

Donald Trump ásamt Giuliani í ágúst í fyrra.
Donald Trump ásamt Giuliani í ágúst í fyrra. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segir að húsleit bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, í íbúð Rudys Giulianis, fyrrverandi lögmanns hans, hafi verið „virkilega ósanngjörn“.

„Rudy Giuliani er mikill föðurlandsvinur. Hann elskar þetta land og þeir ráðast inn í íbúðina hans,“ sagði Trump við Fox Business. „Þetta er virkilega ósanngjarnt og algjör tvískinnungur, meiri en ég hef nokkru sinni séð áður,“ bætti hann við.

„Þetta er mjög, mjög ósanngjarnt. Rudy er föðurlandsvinur sem elskar þetta land og ég veit ekki að hverju þeir voru að leita eða hvað þeir voru að gera.“

Húsleitin var gerð í íbúð Giuliani á Manhattan og á skrifstofu hans í gær. Hús­leit­in var hluti af rann­sókn FBI á sam­skipt­um Giuli­an­is við úkraínsk stjórn­völd en lögmaður hans segir að Giuli­ani hafi ekkert brotið af sér.

Fyr­ir síðustu Banda­ríkja­for­seta­kosn­ing­ar lagði Giuli­ani kapp á að kom­ast að því hvort Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og son­ur hans Hun­ter hefðu unnið til saka í Úkraínu. Biden hef­ur neitað öll­um ásök­un­um þess efn­is.

mbl.is