Eftirlitsnefnd Facebook staðfestir bann á Trump

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Eftirlitsnefn Facebook hefur staðfest fyrri ákvörðun samfélagsmiðilsins um að loka aðgangi Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Aðgangi Trumps var lokað eftir óeirðirnar í janúar þegar múgur sem var á bandi Trumps réðst inn í þinghúsið í Washington DC.

Aðgangi Trumps var til að byrja með lokað tímabundið í sólarhring vegna tveggja pósta þar sem hann virtist hrósa gerendum í árásinni. Síðar var bannið framlengt út fyrir tíma hans í embætti hið minnsta og Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, tilkynnti svo um ótímabundið bann.

Facebook ákvað að senda ákvörðun sína til eftirlitsnefndarinnar, sem stundum hefur verið kölluð hæstiréttur Facebook. Því var komið á fót í fyrra og er ætlað að starfa óháð ákvörðunum stjórnenda Facebook.

Meðal þeirra sem sitja í nefndinni eru Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, Jamal Greene, lagaprófessor við Columbia háskólann, Tawakkol Karman, Nóbelsverðlaunahafi frá Jemen og Alan Rusbridger, fyrrverandi ritstjóri Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina