Verðhækkanir vegna launahækkana ríkisstarfsmanna

Bashar al-Assad, einræðisherra Sýrlands.
Bashar al-Assad, einræðisherra Sýrlands. AFP

Eldsneytisverð nærri þrefaldaðist og verð á brauði tvöfaldaðist í Sýrlandi í kjölfar tilskipunar Bashars al-Assads, einræðisherra landsins, um að laun ríkisstarfsmanna skyldu hækkuð um 50%.

Þar að auki hafa lífeyrisgreiðslur til ríkisstarfsmanna og hermanna hækkað um 40%.

Borgarastyrjöld geisar enn í Sýrlandi, réttum áratug eftir að hún hófst. Áðurnefndur Assad hefur í 10 ár barist gegn uppreisnarliðum í landinu, sem tóku til vopna sinna í „arabíska vorinu“ í upphafi síðasta áratugs. 

Samkvæmt verðskrá yfir helstu nauðsynjavörur, sem SANA-fréttastofan í Sýrlandi tók saman, mun lítrinn af dísel nú kosta um 500 sýrlensk pund (49 krónur) en kostaði um 180 sýrlensk pund (18 krónur) fyrir aðeins nokkrum dögum.

Verð á brauði hefur þá tvöfaldast, eins og fyrr segir, og kostar hleifur nú um 200 sýrlensk pund (19 krónur). Talsmaður ríkisrekinna hagsmunasamtaka bakara segir að verðhækkunin stafi af hækkandi eldsneytisverði.

Sýrlendingar hafa enda reynt að smygla nausynjavörum frá nágrannaríkjum, þar sem þær fást fyrir lægra verð. Sérstaklega reyna Sýrlendingar að smygla eldsneyti yfir til Sýrlands, þá einna helst frá grönnum sínum í Líbanon, þar sem eldsneytisverð hækkaði um 35% fyrir um tveimur vikum, meðal annars til þess að sporna við frekara smygli yfir til Sýrlands.

mbl.is