Lögregla skaut hryðjuverkamann til bana

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Lögregla í Auckland, Nýja-Sjálandi, skaut hryðjuverkamann til bana, sem stakk minnst sex manns í stórmarkaði í borginni í gær.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, segir að árásin hafi verið hryðjuverkaárás af hálfu mannsins, ríkisborgara Srí Lanka sem var undir eftirliti stjórnvalda.

Maðurinn var skotinn til bana innan við mínútu frá því að lögregla hóf viðbragð sitt.

BBC greinir frá.

„Það sem gerðist í dag var fordæmanlegt, það var drifið áfram af hatri og var rangt,“ sagði Ardern á blaðamannafundi í dag.

Hún sagði einnig að árásarmaðurinn hafi komið til Nýja-Sjálands árið 2011 og hafi vakið grunsemdir þarlendra stjórnvalda árið 2016. Stöðugt eftirlit hafði verið með manninum síðan þá vegna gruns um að hann aðhylltist öfgakennda hugmyndafræði.

Þess vegna hafa enda spurningar vaknað í nýsjálensku samfélagi um það af hverju ekki hafi verið gripið inn í fyrr, áður en maðurinn réðist á sex manns með hnífi og særði.

Vitni að árásinni lýsti því við nýsjálenska fréttastöð að algjör upplausn hafi gripið um sig á vettvangi. Fólk hafi hlaupið um og öskrað upp yfir sig auk þess sem nokkuð fullorðinn karlmaður lá í jörðinni með stungusár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert