Drengnum hugsanlega rænt

Kláfurinn féll um 20 metra til jarðar.
Kláfurinn féll um 20 metra til jarðar. AFP

Saksóknarar á Ítalíu rannsaka nú hvort að sex ára dreng, Eitan, sem var sá eini sem lifði af þegar kláfur féll til jarðar á Norður-Ítalíu, hafi verið rænt af afa sínum.

Eitan var fimm ára þegar kláfurinn hrapaði til jarðar í maí og komst einn lífs af þar sem fjórtán lét­ust. Á meðal lát­inna voru báðir for­eldr­ar hans, yngri bróðir og langamma og langafi. Fjöl­skyld­an var frá Ísra­el.

Á vef The Guardian kemur fram að forræðisdeila standi nú yfir varðandi drenginn en hann hefur búið hjá föðursystur sinni, Aya Biran-Nirko, á Ítalíu eftir að slysið varð. Í gær mun afi hans hins vegar hafa rænt honum og flogið með hann til Ísrael.

„Við fluttum Eitan heim“

Móðursystir drengsins, Gali Peleg sem býr í Ísrael, sótti um að ættleiða drenginn fyrir mánuði síðan og segir að föðursystir hans haldi honum í gíslingu. 

„Við rændum ekki Eitan og við ætlum ekki að nota það orð. Við fluttum Eitan heim. Við þurftum að gera það eftir að okkur bárust engar fregnir af líðan hans. Ef að dómari hefði ekki úrskurðað tímasetningar sem við megum heimsækja hann myndum við aldrei sjá hann,“ sagði Paleg í útvarpsviðtali í dag.

Afi Eitan, Shmulik Peleg, flutti til Ítalíu frá Ísrael eftir slysið. Á laugardagsmorgun fór hann síðan með drenginn út og skilaði honum ekki á tilsettum tíma um kvöldið. Lögregla var þá kölluð til og í ljós kom að Eitan var á leið til Ísrael. 

mbl.is