Amma drengsins sætir einnig rannsókn

Kláfurinn féll til jarðar á Norður-Ítalíu.
Kláfurinn féll til jarðar á Norður-Ítalíu. AFP

Amma Eitan, drengsins sem lifði einn af kláfaslys á Ítalíu í maí, sætir nú rannsókn fyrir að hafa rænt drengnum frá föðursystur hans á Ítalíu.

Á sunnudag var sagt frá því að afi Eitan sætti rannsókn fyrir að hafa farið með Eitan til Ísrael frá Ítalíu í óþökk föðursystur hans. Hún hefur haft forsjá með Eitan eftir að foreldrar hans létust í kláfaslysinu.

Nú er talið að móðuramma Eitan hafi aðstoðað fyrrverandi eiginmann sinn að skipuleggja ránið á drengnum samkvæmt frétt á vef The Guardian.

Segja Eitan fá aðstoð lækna og sálfræðinga

Afi Eitan fór fyrst með hann yfir landamærin til Sviss þar sem þeir fóru með einkaflugvél til Tel Aviv í Ísrael. Fjölskylda hans í Ísrael segir að Eitan fái nú aðstoð sálfræðinga og lækna á sjúkrahúsi í Tel Aviv. 

Við vitum að það er lagalegt ferli sem fer í gang við það að óhlýðnast yfirvöldum varðandi brottnám barns, en nöfn grunaðra hafa ekki verið gefin upp,“ sagði Armando Simbari, lögfræðingur fjölskyldu Eitan á Ítalíu, í dag.

Fjölskylda Eitan á Ítalíu hefur lagt fram beiðni fyrir dómstól í Tel Aviv til þess að fá drenginn aftur til Ítalíu. 

Samkvæmt ísraelskum lögum hefur Eitan verið rænt ef að einstaklingurinn sem hefur forsjá með honum, sem er föður­syst­ir hans, samþykkti ekki að hann mætti koma til landsins. Ef að fjölskyldurnar í báðum löndum komast ekki að samkomulagi þarf að senda Eitan aftur til Ítalíu samkvæmt ísraelskum lögum. 

Luigi Di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði í gær að ríkisstjórnin væri að skoða málið betur áður en hún myndi mögulega aðhafast í máli Eitan.

mbl.is