Spilaði róandi tónlist fyrir reiðan Trump

Stephanie Grisham ásamt Donald Trump í ágúst 2019.
Stephanie Grisham ásamt Donald Trump í ágúst 2019. AFP

Aðstoðarmaður sem var kallaður „Músíkmaðurinn” hafði það verkefni að róa taugar Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þegar hann tók reiðiköst með því að spila fyrir hann róandi tónlist.

Þetta kemur fram í nýrri bók Stephanie Grisham, fyrrverandi blaðafulltrúa forsetans.

Grisham, sem er þekkt fyrir að hafa ekki haldið einn einasta blaðamannafund fyrir sjónvarp á meðan hún starfaði í Hvíta húsinu, skrifar í „I´ll Take Your Questions Now” að yfirmaður hennar hafi tekið „hræðileg” reiðiköst.

Stephanie Grisham.
Stephanie Grisham. AFP

Trump og eiginkona hans hafa fordæmt bókina en útdrættir úr henni birtust í blöðunum The New York Times og Washington Post.

Núverandi talsmaður Trumps, Liz Harrington, sagði Grisham vera „ósáttan fyrrverandi starfsmann” og að bókin væri „uppfull af fölskum staðhæfingum”.

Trump er oft sagður hafa beint reiði sinni að Pat Cipollone, sem var yfirlögfræðingur Hvíta hússins, þegar sá síðarnefndi varaði forsetann við ef hann var í þann mund að gera hluti sem voru „siðlausir eða ólöglegir”.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Grisham greinir einnig frá því í bókinni þegar hún var boðuð í flugvél forsetans til að hlýða á andsvar hans við miður skemmtilegri lýsingu klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels á getnaðarlimi hans.

Til að róa Trump niður var náungi sem starfsmenn Hvíta hússins kölluðu „Músíkmanninn” kallaður til. Spilaði hann fyrir hann Broadway-lög, þar á meðal „Memory” úr söngleiknum „Cats”, að því er kemur fram í bókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert