Hafa lifað í ótta um árabil

Annar helmingur flaks U-864 á 150 metra dýpi undan vesturströnd …
Annar helmingur flaks U-864 á 150 metra dýpi undan vesturströnd Noregs, skammt frá Fedje, tundurskeyti breska kafbátsins Venturer sprengdu þýska andstæðinginn í tvennt 9. febrúar 1945 og fórst 73 manna áhöfn með U-864. Tölvugerð mynd/Siglingastofnun Noregs/Kystverket

Á 150 metra dýpi í köldum sæ úti fyrir einu af minnstu sveitarfélögum Noregs, eyjunni Fedje í Vestland-fylki, um 80 kílómetra norðvestur af Bergen, liggur flak þýska kafbátsins U-864 sem háði sína hinstu hildi gegn breska kafbátnum Venturer 9. febrúar 1945, sem þá laut stjórn James Stuart Launders, 25 ára gamals kafteins konunglega breska sjóhersins.

Launders og áhöfn hans voru langt undan heimahöfn sinni í Lerwick á Shetlandseyjum og höfðu einungis átta tundurskeyti um borð á móti 22 skeytum Ralf-Reimar Wolfram, skipherra á U-864. Wolfram glímdi hins vegar við vélarbilun í sínu fleyi og var á leið til Bergen í slipp, í Noregi sem þá hafði verið undir járnhæl þýsks innrásarhers allar götur síðan 9. apríl 1940.

„Unternehmen Kaiser“

Förinni var hins vegar heitið mun lengra en til Noregs. U-864 var á leið til Japans með rúmlega 60 tonn af kvikasilfri í 32 kílógramma stálflöskum, 1.857 talsins, auk þýskra þotuhreyfla í orrustuþotur, en varningurinn var ætlaður bandamönnum Þjóðverja, Japönum, sem er þarna var komið sögu voru teknir að fara verulega halloka í styrjöldinni. Um borð voru einnig tveir þýskir verkfræðingar frá Messerschmitt, þeir Rolf von Chlingensperg og Riclef Schomerus, auk japanska tundurskeytasérfræðingsins Tadao Yamoto og landa hans, eldsneytisfræðingsins Toshio Nakai.

Leiðangurinn gekk undir heitinu Aðgerðin Sesar, Operation Caesar, í bókum bandamanna, Unternehmen Kaiser hjá Þjóðverjum, og var svo leynileg að hún var ekki nefnd einu orði nema í rækilega dulkóðuðum fjarskiptum sem bandamenn höfðu hlerað – og ráðið.

Sesar hlaut skjótan endi, eins og samnefndur keisari löngu áður, áhöfn Venturer komst í færi og skaut tveimur tundurskeytum að U-864 sem hæfðu miðskips, sprengdu kafbátinn í tvennt og sendu hann með manni og mús, 73 manna áhöfn, niður á hafsbotn. Með þessum atburði var það blað brotið í sögu sjóhernaðar í heiminum að í fyrsta skipti grandaði einn kafbátur öðrum, með vilja, meðan báðir voru staddir í kafi.

Tifandi tímasprengja

Þessi skammvinna orrusta í febrúar 1945 átti þó eftir að verða pólitískt bitbein í Noregi 75 árum síðar. Íbúar litla samfélagsins á Fedje, 521 talsins við lok annars fjórðungs þessa árs samkvæmt tölum norsku hagstofunnar, hafa lifað í ótta árum saman. Ótti þeirra snýst um kvikasilfrið í flakinu, tugi tonna í flöskum sem legið hafa í söltum sæ hátt í öld. Tifandi tímasprengja umhverfisslyss sem vart ætti sér hliðstæðu við Noregsstrendur.

Litla samfélagið á Fedje, heimili rúmlega 500 manns og eitt …
Litla samfélagið á Fedje, heimili rúmlega 500 manns og eitt af minnstu sveitarfélögum landsins. Eyjarskeggjar vilja losna við kvikasilfurkafbátinn sem þeir hafa nú vitað af í 18 ár. Ljósmynd/Sveitarfélagið Fedje

Í 18 ár, síðan flak U-864 fannst árið 2003, hafa stjórnendur Fedje leitað áheyrnar norskra stjórnvalda og beðist lausnar á vanda sínum. Sú lausn virðist ekki í sjónmáli. Í desember 2019 kvað siglingastofnun Noregs, Kystverket, upp þann úrskurð að hentugast væri að byrgja flak kafbátsins inni, þegar hætta er á mengun af völdum þungmálma hafa slíkar aðgerðir verið framkvæmdar með dúk úr pólýprópýlen sem svo er þakinn sandi eða möl. Sú hugmynd hafði einnig komið fram fyrr, árið 2006.

Ekkert varð af þeirri aðgerð þar sem ríkisstjórn Noregs tók þá ákvörðun að setja á laggirnar nefnd sérfræðinga, ekki þá fyrstu í þessu máli, sem ætlað var að gera úttekt á vandanum og leiðum til úrbóta. Átti nefndin að skila skýrslu sinni 1. nóvember 2021, í gær, en ekkert varð af því. Þýfguð um svör sagði formaður nefndarinnar, Gro Kielland, við norska ríkisútvarpið að langt væri í að skýrslan góða liti dagsins ljós. Þess vegna hefði nefndin sótt um og fengið frest til 1. júlí 2022 til að leggja hana fram.

Vilja flakið í burtu

„Þetta er mjög umfangsmikil vinna. Eftir heimsókn til Fedje og samtöl við íbúa þar hefur nefndinni skilist hve mikilvægt þetta mál er fólki þar,“ sagði Kielland, „við áttum okkur á því hve mikilvægt er að verkið sé framkvæmt rétt og því biðjum við um lengri frest.“

Svo mörg voru þau orð. Stian Herøy, bæjarstjóri Fedje, á erfitt með að sætta sig við biðina sem aðeins lengist. „Þetta segir mér að [nefndin] hafi fundið ný atriði sem á að skoða nánar. Við viljum bara að þessu sé kippt í liðinn,“ sagði hann við NRK í gær og kvað einkum tvær lausnir koma til greina svo eyjarskeggjar svæfu rótt, annaðhvort yrði flakið fjarlægt með kvikasilfrinu eða kvikasilfrið tekið úr flakinu og flutt á brott.

„Fólk hér við alla strandlengjuna vill fá þetta í burtu. Hér hafa svo margir verið óánægðir með ástandið og þess vegna sættum við okkur ekki við þennan gang mála,“ sagði Herøy enn fremur. Líklega þarf hann þó enn að bíða lausna, að minnsta kosti fram í júlí á næsta ári.

Atburðarásin í grófum dráttum síðan flakið fannst:

  • 2003: Áhöfn herskipsins KNM Tyr finnur flak U-864.
  • 2004: Hafist handa við að taka sýni úr fiski og krabba í grennd við flakið árlega.
  • 2005: Siglingastofnun tekur að rannsaka flakið.
  • 2006: Siglingastofnun mælir með að flakið sé byrgt.
  • 2007: Sjávarútvegsráðherra ákveður að flakið skuli byrgt.
  • 2009: Ríkisstjórn Jens Stoltenberg ákveður að flakinu skuli lyft af hafsbotni og botninn svo þakinn efnum sem halda hugsanlegri kvikasilfurmengun í skefjum.
  • 2010: Sama ríkisstjórn ákveður að skoða hvort aðrar aðferðir henti betur.
  • 2011: Sjávarútvegsráðuneytið tekur við tillögum siglingastofnunar um hugsanlegar aðferðir við að koma flakinu og kvikasilfrinu af svæðinu á öruggan hátt.
  • 2013: Siglingastofnun tæmir díselolíubirgðir U-864 úr flakinu.
  • 2014: Ríkisstjórn Ernu Solberg ákveður að veita 150 milljónir króna til að koma fyllingu fyrir undir hluta flaksins þar sem hafsbotninn virtist óstöðugur. Þetta var sú aðgerð sem siglingastofnun lagði til að farið yrði í fyrst.
  • 2018: Sama ríkisstjórn ákveður að gera ráð fyrir fjárframlagi til að byrgja flakið á fjárlögum ársins 2019.
  • 2020: Ríkisstjórnin skipar nefnd sérfræðinga sem átti að skila skýrslu í gær en fékk nýjan frest til 1. júlí 2022.

NRK

NRKII ((2018) byrgja eða hífa?)

NRKIII ((2019) enn ein skýrslan)

Teknisk ukeblad ((2020) farið yfir sögu málsins)

Greinargerð norsku ríkisstjórnarinnar (uppfærð 1. nóvember 2021)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert