Aukin vörn með fjórða skammti

Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, ræddi við blaðamenn á Sheba-sjúkrahúsinu skammt …
Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, ræddi við blaðamenn á Sheba-sjúkrahúsinu skammt frá Tel Aviv, en þar er verið að gefa starfsfólki fjórða skammtinn af bóluefnum gegn Covid-19. AFP

Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, segir að fjórði skammtur bóluefnis gegn Covid-19 auki ónæmi gegn kórónuveirunni fimmfalt um það bil viku eftir örvunarbólusetningu. Bennett vísaði í bráðabirgðaniðurstöður ísraelskrar rannsóknar. 

Bennett sagði að aukin vörn þýði færri smit, færri innlagnir á sjúkrahús og færri myndu veikjast alvarlega en ella. 

Fram kemur í umfjöllun Reuters að Ísrael hafi verið leiðandi í rannsóknum á áhrifum Covid-bóluefna. Það var fyrsta ríkið sem hóf að gefa tvo skammta af bóluefnum fyrir ári síðan og eitt af þeim fyrstu sem hóf að gefa örvunarskammt, eða þriðja skammtinn. 

Nú er verið að gefa íbúum sem eru eldri en 60 ára fjórða skammtinn sem og heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum sem eru með veikt ónæmiskerfi. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sagt að það eigi að byrja á því að bólusetja fleiri íbúa á heimsvísu af fyrsta skammti áður en aðrir hljóti frekari örvunarskammta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert