Munu loka fyrir Nord Stream 2 komi til innrásar

Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundinum í gær.
Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundinum í gær. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að lokað verði fyrir jarðgasleiðslu Rússa sem liggur til Þýskalands ráðist þeir inn í Úkraínu.

BBC greinir frá.

Þetta kom fram í máli forsetans þar sem hann ræddi Olaf Scholz kanslara Þýskalands í Washington höfuðborg Bandaríkjanna í gær. Biden gaf ekki upp hvernig hann hugðist framkvæma þessa áætlun þegar hann var spurður af blaðamönnum að loknum fundi þjóðarleiðtoganna tveggja. Hann var þó staðráðinn í að þetta yrði gert.

„Ég lofa því, við munum koma þessu í verk,“ sagði forsetinn.

Kanslarinn var þó ekki jafn skýr í svörum þegar kom að þessu máli. Hann gat þó staðfest að Bandaríkin og Þýskaland væru á sama máli þegar kæmi að refsiaðgerðum gagnvart Rússlandi ef það kæmi til innrásar í Úkraínu.

Komnir með 70% af herliðinu

Ríflega 100 þúsund rússneskir hermenn eru nú við landamæri Úkraínu og telja bandarísk yfirvöld að Rússar hafi tekist að safna saman um 70% þess herliðs sem þurfi til þess að hefja innrás.

Vaxandi ótti er vegna yfirvofandi innrásar í Úkraínu og hafa Bandaríkin og fleiri Vesturlönd hótað refsiaðgerðum gegn Rússum sem hafa þó neitað öllum sökum. Hefur Vladimír Pútín þá meðal annars sakað Bandaríkjamenn um afskiptasemi.

Var fimm ár í framkvæmd

Gasleiðslan sem um ræðir ber heitið Nord Stream 2 og tók fimm ár að byggja. Nam kostnaður verksins um 11 milljörðum dala, eða um 1.379 milljarða króna.

Leiðslan hefur þó ekki enn verið tekin í notkun þar sem að hún er ekki í samræmi við þýsk lög og bíður hún nú samþykkis.

Stór evrópsk fyrirtæki hafa tekið þátt í að fjármagna verkið, sem á að tvöfalda gasútflutning Rússlands til Þýskalands. Aðrir hafa þó mótmælt gasleiðslunni, meðal annars vegna loftslagssjónarmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert