Ef einhver getur haldið Eurovision þá er það Úkraína

Óskar er nú staddur í Karkív í austurhluta landsins og …
Óskar er nú staddur í Karkív í austurhluta landsins og segir að ástandið sé í raun betra en hann hafði búist við. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Ef að einhver þjóð í heiminum getur haldið Eurovision eftir eitt ár þá held ég að það sé Úkraína,“ segir Óskar Hall­gríms­son, ljós­mynd­ari og íbúi í Kænug­arði, í samtali við mbl.is um ummæli Volodimír Selenskí Úkraínuforseta sem hefur heitið því að keppnin verði haldin í Maríupol einn daginn.

Óskar segir markmið Selenskí að halda keppnina í Úkraínu eftir ár sé í sjálfu sér óraunhæft en það hafi líka verið óraunhæft að Úkraínumenn myndu sigra í stríðinu við Rússa, sem þeir séu nú að gera.

Hann segir að lag Úkraínu, Stefania, hefur farið frá því að fjalla um móður söngvara hljómsveitarinnar í að fjalla um móðurlandið. 

Ástandið betra en hann bjóst við

Óskar er nú staddur í Karkív í austurhluta landsins og segir að ástandið sé í raun betra en hann hafði búist við. 

„Karkív er mjög stór, það eru tæplega tvær milljónir sem búa hérna, og er því ekki það mikið minni en Kænugarður. Á fyrstu dögum stríðsins komust Rússar inn en svo var þeim ýtt aftur út, líkt og gerðist í Kænugarði,“ segir Óskar og bætir við að munurinn hafi verið sá að loftvarnir Kænugarðs eru mun sterkari. 

Karkív er nærri landamærum Úkraínu að Rússlandi og því segir hann að auðveldara hafi verið fyrir Rússa að gera loftárásir á borgina. 

Íbúar borgarinnar hafa sagt við Óskar að loftárásirnar hafi verið erfiðastar, ekki stórskotahríðirnar. 

„Þú vissir nokkurn veginn hvar skothríðin myndi lenda og hversu langt þær næðu en þoturnar eru óútreiknanlegar. Þú fraust í nokkrar sekúndur og varðst að bíða og vona að það yrði ekki þitt hús sem yrði sprengt í tætlur.“

Leikskóli sem varð fyrir sprengingum Rússa.
Leikskóli sem varð fyrir sprengingum Rússa. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Rússar ekki með réttar upplýsingar

Óskar nefnir að stórar byggingar, svo sem skólar og íþróttahús, hafi orðið fyrir árásum og sé það vegna þess að þær byggingar verði oft að miðstöðvum fyrir herinn. Það sé þó ekki alltaf raunin.

„Það hefur sýnt sig í ýmsum tilfellum í gegnum stríðið, sérstaklega inni í borgunum, að upplýsingarnar sem Rússar eru með eru ekki réttar. Þeir eru með mjög lélegt leyniþjónustukerfi til að afla upplýsinga.“

Óskar nefnir dæmi af vopnaverksmiðju í Kænugarði sem hefur ekki framleitt vopn síðan á áttunda áratugnum, en samt gerðu Rússar tvisvar árás á bygginguna.

Borgin mjög tóm

Hann nefnir að Karkív sé um einum og hálfum mánuði á eftir Kænugarði í að komast aftur í sama horf og fyrir stríðið. 

„Kænugarður hefur vaknað mikið aftur til lífs,“ segir Óskar og bætir þó við að meira hafi verið sprengt í Karkív en í Kænugarði. 

Þá segir hann gríðarlegan fjölda íbúa Karkív hafa yfirgefið borgina á fyrstu vikum stríðsins.

„Lestarkerfið var alveg á milljón að koma fólki út úr borginni. Þannig að borgin er mjög tóm.“

Íbúabyggð nyrst í Karkív hefur lent hvað verst úti í …
Íbúabyggð nyrst í Karkív hefur lent hvað verst úti í stótskotahríðum Rússa. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Úkraína með yfirhöndina

Óskar segir að miklar vendingar hafi orðið í stríðinu á síðustu dögum og nú sé Úkraína með yfirhöndina.

„Í dag og í gær kom almennilega í ljós að Úkraínumenn eru búnir að vinna stríðið um Karkív eins og þeir unnu stríðið um Kænugarð. Það er vestrænum vopnum að þakka.“

Hann segir að Rússar séu komnir úr skotfæri við Karkív þar sem að vopnin frá Vesturlöndum hafi lengra skotfæri heldur en þau vopn sem Rússar hafa.

„Úkraínumenn geta skotið Rússana en Rússar geta ekki skotið til baka þannig að þeir verða að hörfa,“ segir Óskar og bætir við að Rússar hörfi hratt en um 20 þorp voru frelsuð í gær í kringum Karkív. 

mbl.is