AstraZeneca brigslað um taugasjúkdóm

Skammtur af bóluefni AstraZeneca sem vísindamenn brigsla nú um að …
Skammtur af bóluefni AstraZeneca sem vísindamenn brigsla nú um að valda hinum sjaldgæfa taugasjúkdómi Guillain-Barré-heilkenni. AFP

Sýnt þykir að kórónuveirubóluefnið AstraZeneca geti ýtt undir líkurnar á að þiggjendur fái hinn sjaldgæfa taugasjúkdóm Guillain-Barré-heilkenni, eða GBS, sé mark takandi á rannsakendum University College í London. Hafa þeir komist að þeirri niðurstöðu að svokallaður trójuhestur í AstraZeneca, sem hvetur ónæmiskerfið til að skera upp herör gegn veirunni er hesturinn ber með sér, geti kveikt heilkennið hjá þiggjanda efnisins en meðal einkenna þess má nefna doða og sársauka í vöðvum, skerta hreyfigetu og erfiðleika við að kyngja og jafnvel draga andann.

GBS er algengur fylgifiskur kamfýlóbaktersýkingar en sú baktería getur auðveldlega blekkt ónæmiskerfið til að ráðast gegn taugakerfi mannfólks. Veittu rannsakendur við University College fjölgun GBS-tilfella athygli vikurnar eftir að fólk hafði verið sprautað með AstraZeneca en slíkt kom ekki fram hjá þiggjendum annarra bóluefna. AstraZeneca er adenóveirubóluefni og notar aðra veiklaða veiru til að hýsa erfðaefni kórónuveirunnar og telja vísindamennirnir, eins og í tilfelli kamfýlóbakter, að adenóveiran rugli ónæmiskerfið í ríminu með þeim afleiðingum að það ráðist á eigin líkama.

Segja Janssen sama marki brennt

„Eins og sakir standa vitum við ekki hvernig bóluefni getur fjölgað GBS-tilfellum. Hugsanlega tengist það ónæmisvökum í sumu fólki en sé það rétt ættu öll bóluefni að geta haft sömu áhrif,“ segir prófessor Michael Lunn, einn vísindamannanna við University College, í samtali við breska dagblaðið Daily Telegraph, „þess vegna er eðlilegt að draga þá ályktun að þessi tiltekni adenóveiruvektor, sem er algengur í bóluefnum, þar á meðal efni AstraZeneca, geti borið með sér þessa auknu áhættu [á GBS-heilkenninu].“

Tilfellin eru þó enn sem komið er færri en þegar kamfýlóbakter er annars vegar og um einn af hverjum þúsund fær taugasjúkdóminn en rannsóknargögn frá Bandaríkjunum gefa til kynna að bóluefnið Janssen bjóði svipaðri hættu heim og kveiki GBS-heilkennið með þiggjendum sínum.

The Telegraph

ABC

Business in Vancouver

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert