„Ég átti ekki von á þessu“

Slökkviliðsmaður að störfum við bygginguna sem eru rústir einar eftir …
Slökkviliðsmaður að störfum við bygginguna sem eru rústir einar eftir árásina. AFP

„Við vorum að vinna og það voru margir inni í versluninni, en svo man ég ekkert meira,“ sagði hinn 26 ára gamli Maksím Músíenkó sem starfaði í raftækjaverslun í verslunarmiðstöð í Krement­sjúk í Úkraínu sem Rússar réðust  á í gær. 

Hann segir að um 100 viðskiptavinir hafi verið inni í versluninni þegar árásin var gerð um kl. 16 að staðartíma. Þá hæfði rússneskt flugskeyti bygginguna sem er í miðborginni. Að minnsta kosti 18 létust og 59 liggja særðir. Búist er við að tölurnar eigi eftir að hækka. 

AFP

„Rússum stafar engin ógn af verslunarmiðstöðinni. Við töldum okkur vera langt frá fremstu víglínu,“ sagði Maksím sem særðist í árásinni, að því er fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins. 

Annar maður að nafni Mykola segir í samtali við BBC, að hann hafi rankað við sér við hlið eiginkonu sinnir í húsarústunum. „Við reyndum að komast út. Ég aðstoðaði konuna mína og unga stúlku á leiðinni út. Ég sá fólk liggja á víð og dreif, sum alveg hreyfingarlaus. Eldurinn magnaðist og ég gekk á glerbrotum,“ sagði Mykola. 

AFP

„Ég átti ekki von á þessu,“ bætti hann við. „Ég hélt að þeir væru að reyna að leggja innviði okkar í rúst. Mér datt aldrei í hug að þeir myndu skjóta á verslunarmiðstöð. Hér eru konur og börn. Þetta á að vera öruggur staður.“

mbl.is