Fylla grunnskólana af rifflum fyrir skólasetningu

Mikil umræða hefur átt sér stað í Bandaríkjnum á síðustu …
Mikil umræða hefur átt sér stað í Bandaríkjnum á síðustu mánuðum og árum hvort að eigi að herða byssulöggjöf. Sumir telja vopnaburð hættulegan á meðan aðrir telja það nauðsynlegt til að geta varið sig. AFP

Skrifstofur grunnskólakennara í Madison-sýslu í Norður-Karólínu-ríki í Bandaríkjunum verða búnar AR-15 rifflum þegar börn ganga aftur í skóla seinna í þessum mánuði. Er þetta gert svo að kennarar og annað starfsfólk grunnskólanna geti varið sig og nemendur ef skotárás skyldi hefjast í skólunum.

Fréttastofa ABC greinir frá þessu. 

Þessi ákvörðun kemur í kjölfar fjölda skotárása í skólum í Bandaríkjunum. Ekki er langt síðan skotárás var gerð í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas-ríki í Bandaríkjunum þar sem 19 börn og tveir kennarar létu lífið.

Byssurnar verða læstar í skáp

Lögreglustjóri Madison-sýslu, Buddy Harwood, og stjórnendur skólanna hafa ákveðið að AR-15 rifflar verði til taks í öllum sex skólum sýslunnar. Allar byssurnar verða læstar inni í sérútbúnum öryggisskápum.

Að sögn Harwoods er þetta gert til að koma í veg fyrir sömu atburðarás og átti sér stað í Uvalde. Komið hefur í ljós að lögreglumenn höfðu verið á vettvangi í meira en klukkutíma áður en þeir létu til skarar skríða gagnvart árásarmanninum.

„Lögreglumennirnir voru aðgerðalausir í byggingunni svo lengi að árásarmaðurinn gat óhindrað gengið um bygginguna og sært og myrt of mörg börn,“ sagði Harwood við fjölmiðla í sýslunni.

„Vonandi þurfum við aldrei að nota byssurnar en það er betra að allir séu viðbúnir.“

mbl.is