Hart barist gegn átta skógareldum í Frakklandi

Fleiri en þúsund slökkviliðsmenn berjast við mikla skógarelda í suðvesturhluta Frakklands sem hafa nú þegar eyðilagt um 7.000 hektara skóglendis. 

Um tíu þúsund manns hafa neyðst til að flýja heimili sín þar sem eldarnir geisa í grennd við borgina Bordeaux.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tilkynnti í dag að Austurríki, Þýskaland, Grikkland, Pólland og Rúmenía „kæmu til að aðstoða“ Frakkland við að berjast við eldinn.

Að auki sagði Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, að Svíþjóð og Ítalía væru að senda slökkviflugvélar til aðstoðar.

Embættismenn vöruðu við því í dag að blossar gætu valdið því að skógareldarnir breiddu enn frekar úr sér í þurrari hluta landsins, en Frakkland hefur orðið fyrir barðinu á gríðarlegum þurrkum í sumar. 

Virðist ekki draga úr eldunum

Eldurinn í Landiras braust út í júlí, þurrasta mánuðinum í Frakklandi frá árinu 1961. 

Þá er ekki útlit fyrir að draga muni úr eldunum í bráð, þar sem mjög heitt verður fram á sunnudag. 

Sem stendur geisa átta skógareldar í Frakklandi. 

mbl.is