„Eðlilegt að bíða þar til öllu er óhætt“

SLS-flaugin sem Artemis-áætlunin byggir á situr óhreyfð á stalli sínum, …
SLS-flaugin sem Artemis-áætlunin byggir á situr óhreyfð á stalli sínum, en fresta þurfti geimskoti Artemis 1 í annað sinn í dag. AFP

Bandaríska geimferðastofnunin NASA frestaði fyrr í dag aftur eldflaugaskoti sínu, sem á að marka upphaf Artemis-áætlunarinnar til tunglsins. Sævar Helgi Bragason, sem oft er nefndur Stjörnu-Sævar segir frestunina eðlilega. 

Samkvæmt upplýsingum frá NASA er bilunin í einni af hliðareldflaugum geimfarsins sem aðstoða við að lyfta því frá jörðu í upphafi skotsins, en vísbendingar eru um að leki þar þýði að eldflaugin nái ekki réttu hitastigi sem þurfi til þess að hægt sé að skjóta geimfarinu af stað. Sævar Helgi segir að nú sé gert ráð fyrir að reynt verði að skjóta á mánudaginn eða þriðjudaginn, en eftir það er líklegt að fresta þurfinu skotinu alveg aftur í miðjan september-mánuð ef það tekst ekki í þessum „skotglugga“. 

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er bara mjög eðlilegt“, segir Sævar Helgi. „Þegar maður er að prófa eldflaug í fyrsta sinn, þá er beðið þar til allt er klárt og óhætt er að tendra hana.“ Hann bætir við að í fyrri tunglferðaáætlun Bandaríkjamanna, sem kennd var við gríska guðinn Apolló, hafi menn óhikað seinkað geimskotum í nokkra klukkutíma og jafnvel daga ef ekki var allt saman í himnalagi. 

-En hvaða þýðingu hefur það ef geimskotið heppnast? „Ef þetta lukkast þá eru það auðvitað tímamót. Við höfum ekki haft eldflaug sem hefur getað flutt menn og búnað til tunglsins frá árinu 1972 þegar Apolló 17 var sendur til tunglsins, en það helgast af því að það þarf ansi mikla orku til að koma bæði mönnum og geimskipum alla leið,“ segir Sævar.

Þurfti að viðhalda bæði störfum og tækniþekkingu

Bæði Barack Obama og Donald Trump lögðu mikla áherslu á endurnýjaðar tunglferðir í forsetatíð sinni, en Sævar Helgi segir að þar hafi pólitíkin einnig spilað sinn þátt. „Í gömlu geimskutluáætluninni voru hlutirnir í hana framleiddir vítt og breitt um Bandaríkin, og það var ekki vinsælt skref þegar þeirri áætlun var hætt án þess að eitthvað kæmi í staðinn,“ segir Sævar Helgi og bætir við að því sé nú verið að reyna að viðhalda bæði störfum og tækniþekkingu á þeim stöðum þar sem geimskutluáætluninni var sinnt.

„Ef þú spyrð vísindasamfélagið sjálft, er það gagnrýnið á fjármunina sem fara í SLS-áætlunina og Artemis, þar sem hægt væri að framkvæma hlutina sem tunglfararnir ætla að gera mun betur með vélmennum og þjörkum,“ segir Sævar Helgi, en játar að það sé óneitanlega meira stolt sem fylgi því að senda mannað geimfar til tunglsins en þjarka. Hann bendir á í því samhengi að hluti geimfarsins sé smíðað af evrópsku geimferðastofnuninni ESA, og segir hann að evrópska geimferðasamfélagið sé mjög stolt af sínum þætti í þessu.

Stefnt að nýrri geimstöð

Hluti af Artemis-áætlunin er að sett verði upp geimstöð, „Hliðið“ eða „The Gateway“ á frummálinu, sem verði á sporbaug um tunglið, en gert er ráð fyrir að í framtíðinni muni geimförin sem send eru frá jörðu „leggjast við bryggju“ þar, en svo verði hægt að senda minna hylki niður til yfirborðs tunglsins frá Hliðinu. 

Allar aðstæður þurfa að vera hárréttar til þess að hægt …
Allar aðstæður þurfa að vera hárréttar til þess að hægt sé að leggja af stað. AFP

Sævar Helgi segir þetta spennandi þróun, sem nýti raunar tækni sem þróuð var fyrir Apolló-áætlunina um tengingar á milli mismunandi „geimhylkja“. „Þá verður hægt að lenda þar í geimstöðinni og svo skjótast niður til tunglsins. Það er spennandi upp á framtíðina að gera að sjá hvernig þróunin verður, því við vitum að það er dýrt að smíða geimstöðvar í kringum jörðina, og verður eflaust enn dýrara að gera það í kringum tunglið, því það þarf að fara svolítið langa leið, en þetta er vissulega spennandi þáttur þessarar áætlunar."

Þá segir Sævar Helgi að það sé einnig spennandi að NASA hyggst senda fyrstu konuna, fyrsta Evrópubúann og fyrsta manninn sem ekki er af hvítum uppruna til tunglsins. "Það á því að fagna fjölbreytileikanum á tunglinu, sem var svo sannarlega tímabært," segir Sævar Helgi, en allir þeir sem stigið hafa fæti á tunglið til þessa hafa verið hvítir karlkyns Bandaríkjamenn. 

Áhuginn heldur minni en árið 1969

Sævar Helgi segir forvitnilegt að skoða áhuga fólks á hinni nýju geimferðaáætlun, þar sem fólk hafi á sínum tíma fylgst mjög vel með Apolló-áætluninni, nánast þar til Apolló 11 lenti á tunglinu 1969 og Neil Armstrong gekk fyrstur manna á tunglinu, en að eftir það hafi áhuginn dvínað hratt.

Systurnar Destrye Sharp (t.v.) og Tamika Sharp komu frá Oklahoma …
Systurnar Destrye Sharp (t.v.) og Tamika Sharp komu frá Oklahoma til að berja geimskotið augum. AFP

„Fólk fór að setja spurningamerki við kostnaðinn og fleira, en núna verð ég allavegana ekki var við áberandi áhuga fólks á þessu, kannski af því að það er ekkert nýtt þannig séð, en kannski er það líka af því geimfarið verður ekki mannað að þessu sinni.“ Sævar segir að líklega muni þó áhuginn aukast eftir því sem nær dregur að mannkynið snúi aftur til tunglsins.

Kolefnissporið of hátt?

Sævar nefnir líka að NASA hafi fengið á sig nokkra gagnrýni, þar sem SpaceX og önnur einkarekin geimfyrirtæki séu að þróa sig áfram með geimflaugar sem eru endurnýtanlegar, en SLS-flaugin sé nánast að öllu leyti einnota. Það hafi því verið spurt hvers vegna verið sé að setja svona mikinn pening í þetta.

-En er þá kolefnissporið of stórt hjá NASA? Sævar Helgi brosir og segir það alveg vera spurningu. "Það er alveg stórt, en á móti kemur að þetta eru ekki það mörg geimskot hjá NASA. Heildarmagnið verður því ekki það stórt í þessu samhengi, á meðan t.d. SpaceX, sem er með minni eldflaugar er að senda þær upp nánast í hverri einustu viku."

mbl.is
Loka